fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Eyjan

Hart tekist á um breyttar sóttvarnaaðgerðir í Danmörku – Segir stjórnarandstöðuna ekki taka faraldurinn alvarlega

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 24. febrúar 2021 06:54

Kórónuveira. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær boðaði danska ríkisstjórnin fulltrúa allra þingflokkana á fund þar sem hugsanlegar tilslakanir á sóttvarnaaðgerðum voru ræddar. Sérfræðingahópur ríkisstjórnarinnar hefur að undanförnu reiknað út afleiðingar þess að slaka á ákveðnum þáttum sóttvarnaaðgerðanna sem eru ansi víðtækar núna. Fundurinn fór þó fljótt í annan farveg en stefnt var að því að fulltrúar hægri flokkanna, svokölluð Blá blokk, yfirgaf fundinn fljótlega. Í kjölfarið hafa ásakanir gengið á víxl á milli Bláu blokkarinnar og Rauðu blokkarinnar (sem eru vinstri flokkarnir).

Ríkisstjórn jafnaðarmanna er minnihlutastjórn sem nýtur stuðnings Einingalistans, Sósíalíska þjóðarflokksins og Radikale Venstre (sem er miðjuflokkur) sem verja hana gegn vantrausti. Þegar minnihlutastjórn er við völd í Danmörku er það venjan að hún nái samkomulagi við aðra flokka um ákveðin mál og nái þannig fram tilskyldum meirihlutastuðningi við lagafrumvörp og þær aðgerðir sem grípa þarf til hverju sinni. Oft er samið við stjórnarandstöðuna og oft standa allir eða nær allir þingflokkarnir á bak við stór mál.

En það verður ekki þannig með tilslakanir á sóttvarnaaðgerðum að þessu sinni. Flokkarnir í Bláu blokkinni, Frjálslynda bandalagið, Íhaldsflokkurinn, Venstre, Danski þjóðarflokkurinn og Nýir borgaralegir, yfirgáfu fundinn í gær eftir skamma stund. Fulltrúar flokkanna telja að þeim hafi verið vísað á dyr.

Jótlandspósturinn hefur eftir Jakob Ellemann-Jensen, formanni Venstre, að flokkarnir hafi fengið skilaboð um að ríkisstjórnin vilji ekki gera meiri tilslakanir á sóttvarnaráðstöfununum en sérfræðingahópurinn leggur til. Þetta fer illa í Bláu blokkina því flokkarnir þar vilja ganga mun lengra og leyfa öllum verslunum að opna sem og skólum. Flokkarnir fara ekki leynt með að þeir hafa miklar áhyggjur af efnahagslífinu vegna sóttvarnaaðgerðanna. Ellemann-Jensen sagði að flokkarnir hafi verið beðnir um að yfirgefa viðræðurnar þegar fulltrúar þeirra vildu ekki fallast á að ekki verði gengið lengra en sérfræðingahópurinn mælir með.

Flokkarnir í Rauðu blokkinni vilja hins vegar stíga varlega til jarðar og benda á að miðað við útreikninga sérfræðingahópsins þá muni smitum fjölga mikið á næstu vikum og að um miðjan apríl verði staðan hugsanlega sú að tæplega 900 COVID-19-sjúklingar verði á sjúkrahúsum landsins sem verða þá komin að þolmörkum. Ef slakað verður meira á en sérfræðingarnir leggi til verði staðan enn verri.

Sérfræðingahópurinn leggur til að slakað verði á sóttvarnaaðgerðum svæðisbundið, til dæmis á Borgundarhólmi þar sem lítið er um smit. Þar er lagt til að skólar verði opnaðir á nýjan leik sem og verslanir og flest annað sem er lokað núna. Á nokkrum stöðum á Jótlandi er lagt til að elsti bekkur grunnskólans fái að mæta í skóla sem og ákveðnir hópar í framhaldsskólum. Þetta byggist á að nemendur fari í sýnatöku tvisvar í viku. Hópurinn leggur einnig til að verslanir, sem ekki eru í verslunarmiðstöðvum, og eru ekki stærri en 5.000 fermetrar fái að opna. Einnig að 20 megi koma saman við íþróttaiðkun utanhúss en nú er hámarkið 5.

Pernille Rosenkrantz-Theil, barna- og menningarmálaráðherra, skrifaði á Twitter í gærkvöldi að hún harmi að fulltrúar Bláu blokkarinnar hafi yfirgefið fundinn. „Bláa blokkin vill slaka svo mikið á að það myndi beinlínis ýta undir nýja bylgju faraldursins. Það er ergilegt að þau taka faraldurinn enn þá ekki alvarlega og að við getum ekki staðið saman í að komast í gegnum þetta,“ skrifaði hún.

Ríkisstjórnin fundar með stuðningsflokkum sínum klukkan 08.30 að dönskum tíma í dag þar sem samstaða mun væntanlega nást um hvaða tilslakanir verða gerðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að