fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Fréttir

Hryllileg saga Halls sem handtekinn var vegna skotárásar – Lögreglumaðurinn sem níddist á þremur stelpum

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 3. febrúar 2021 10:54

mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fréttablaðið greindi frá því í gærkvöldi að maðurinn sem situr nú í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa skotið á bifreið Dags B. Eggertssonar borgarstjóra heitir Hallur Gunnar Erlingsson og er sextugur að aldri. Hallur er fyrrverandi lögregluþjónn. Þar sagði jafnframt að hann hefði árið 2003 hlotið átján mánaða fangelsisdóm fyrir að hafa níðst kynferðislega á barnungum stelpum. Árið 2005 lauk hann afplánun fangelsisdóms síns og árið 2010 hlaut Hallur uppreist æru.

Hallur var handtekinn á laugardaginn og úrskurðaður í tveggja daga gæsluvarðhald. Sá úrskurður var svo framlengdur til föstudags næstkomandi. Segir Fréttablaðið að rök sem færð voru fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi hafi meðal annars verið þau að hann væri hættulegur.

Umræddur dómur var kveðinn upp í héraðsdómi þann 28. apríl árið 2003 og staðfestur af Hæstarétti í nóvember það sama ár. Dóm Hæstaréttar, þar sem dómur Héraðsdóms kemur fram í heilu lagi, má nálgast hér. Þar kemur fram að maðurinn hafi verið sakfelldur fyrir brot gegn þremur stúlkum.

Braut hann gegn einni þeirra þegar stúlkan var 11-16 ára gömul, meðal annars með því að strjúka lærum og kynfærum hennar innan og utan klæða, ítrekað reynt að stinga tungu sinni upp í munn hennar og að hafa að auki „í mörg skipti eftir að stúlkan var orðin 14 ára, sett fingur inn í kynfæri hennar,“ að því er segir í dómnum. Konan er í dag 37 ára gömul.

Brotin gegn hinum konunum tveimur eru sambærileg. Strauk hann brjóst þeirra, maga, læri og kynfæri, innan sem utan klæða þegar þær voru á aldrinum 11-16 ára gamlar. Þær konur eru í dag 35 og 32 ára gamlar.

Hallur neitaði sök á öllum stigum málsins. Sagði hann meðal annars að hann hefði oft veitt að minnsta kosti einni stelpunni íþróttanudd og hugsanlega mætti rekja málið til þess að hún hafi oftúlkað það sem kynferðislegt káf.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að Hallur hafi gerst sekur um ítrekuð kynferðisbrot gagnvart stúlkunum þremur og að hann hafi misnotað sér aðstöðu sína gagnvart þeim. „Brást [hann] trúnaðartrausti þeirra á grófan hátt.“ Sem fyrr segir var niðurstaðan 18 mánaða fangelsisdómur auk þess sem hann þurfti að greiða stúlkunum samtals 1.250.000 krónur í miskabætur.

Sótti um uppreist æru 4 árum eftir afplánun

Árið 2009 sótti Hallur um uppreist æru. Aðeins fjögur ár voru þá liðin frá því að Hallur lauk afplánun 18 mánaða fangelsisdóms síns. Litlum sjö árum eftir að hafa hlotið dóm fyrir að hafa níðst á þremur barnungum stelpum nátengdum honum og fjölskyldu hans, hlaut Hallur uppreist æru. Hann var þá með hreinan skjöld.

Umsókn Halls um uppreist æru fylgdu sjö meðmælabréf þó aðeins tveggja sé krafist. Í þágildandi reglum um uppreist æru var þess getið að meðmælabréfin skulu votta að hegðun umsækjanda hafi verið góð eftir að afplánun fangans lauk. Mörg meðmælabréfanna hans Halls voru ódagsett og reyndust sum þeirra skrifuð áður en Hallur var dæmdur. Í viðtali við RUV árið 2017 sagði einn þeirra sem vottaði góða hegðun Halls eftir afplánun að hann minntist þess ekki að hafa skrifað bréf til að Hallur fengi uppreist æru. „Hann hafi ekki einu sinni vitað að maðurinn hefði sótt um hana.“ „Meðmæli“ þessi komu meðal annars frá Grétari Sæmundssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni og Friðriki Björgvinssyni, yfirlögregluþjóni.

Í bréfi Grétars segir: „Í störfum sínum hefur hann sýnt af sér frumkvæði og verið ósérhlýfinn og samviskusamur“ Bréfið er dagsett 25. ágúst 2002. Í bréfi Friðriks, sem ritað er á bréfsefni Lögreglunnar í Kópavogi og dagsett viku á eftir bréfi Grétars segir að hann sé stundvís, samviskusamur, ósérhlífinn og lipur í mannlegum samskiptum. Bréfin eru bæði dagsett áður en Hallur er dæmdur og eru bersýnilega skrifuð með það í huga að mæla með Halli í starf.

Kjarninn birti á sínum tíma öll meðmælabréfin með hegðun Halls. Þau má sjá hér.

Athygli vakti á sínum tíma að fórnarlömb Halls, stelpurnar þrjár, vissu ekki af því að hann hefði fengið veitta uppreist æru fyrr en sjö árum síðar. Kom það aðeins í ljós í tengslum við miklar umræður sem sköpuðust í samfélaginu þegar fjórum mönnum var veitt uppreist æra vegna kynferðisafbrota árið 2016. Var þar meðal annars um að ræða Róbert Downey, Hjalta Sigurjón Hauksson og Sigurð Ágúst Þorvaldsson. Meðmælabréf fyrir Hjalta Sigurjón skrifaði meðal annars Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og þáverandi forsætisráðherra. Ollu skrif Benedikts miklum titringi í pólitíkinni og fór svo að lokum að Björt framtíð sleit stjórnarsamstarfi og sprengdi ríkisstjórnina eftir aðeins ár í starfi.

Anna Signý Guðbjörnsdóttir, ein kvennanna sem Hallur níddist á, steig fram árið 2017 í áhrifamiklu viðtali við RUV þegar upp komst um uppreist æru Halls. Sagði hún að henni liði eins og búið væri að þurrka dóminn hans út. „Ég þurfti að lesa fréttina þrisvar áður en ég trúði þessu,“ sagði Anna Signý við RUV. „Ég las fyrirsögnina, las hana aftur og aftur, að fyrrverandi lögreglumaður hefði fengið uppreist æru. Ég trúði þessu varla og þurfti að lesa fréttina örugglega þrisvar áður en ég trúði þessu og brotnaði bara niður. Ég var í vinnunni og ég gat bara ekki hugsað. Þetta var áfall og það að hann hafi verið með uppreist æru síðastliðin sjö ár og ég ekki haft hugmynd um það, það fannst mér ótrúlegt.“

Skotárásin einstök í Íslandssögunni

Hallur situr nú sem fyrr segir í gæsluvarðhaldi til föstudags hið minnsta vegna gruns um að hafa hleypt að minnsta kosti tveimur skotum úr .22 kalíbera riffli sínum á bíl borgarstjóra Reykjavíkur, Dags B. Eggertssonar.

Skotárásin er einstök fyrir þær sakir að hún beindist að persónulegu heimili stjórnmálamanns, en áður hafa verið gerðar skotárásir á skrifstofur stjórnmálaflokka. Voru rúður meðal annars brotnar á skrifstofum Viðreisnar, Pírata, Sjálfstæðisflokks, og nú síðast í janúar á skrifstofum Samfylkingarinnar í Sóltúni 26. Ekki er vitað hvort maðurinn sé grunaður um þær árásir einnig. Lögreglan hefur lítið viljað gefa upp um rannsókn málsins, annað en að lagt hafi verið hald á fjölda skotvopna í tengslum við rannsóknina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Kveiks-fíaskóið vandræðalegt fyrir RÚV í ljósi tengsla útvarpsstjóra

Kveiks-fíaskóið vandræðalegt fyrir RÚV í ljósi tengsla útvarpsstjóra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik