Lögreglan í Liverpool er með á borði sínu rannsókn er varðar morðhótanir í garð liðsfélaga Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton eftir leik helgarinnar.
Virgil Van Dijk, leikmaður Liverpool, þarf að fara í aðgerð á hné vegna meiðsla sem hann hlaut í leik gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í um helgina. Van Dijk skaddaði liðbönd í hné eftir tæklingu frá Jordan Pickford, markverði Everton en mikil reiði er í herbúðum Liverpool með þessa tæklingu.
Ekki er ljóst á þessari stundu hversu lengi Van Dijk verður frá en það gæti verið töluvert langur tími og líklega spilar hann ekki meira á þessu tímabili.
Stuðningsmenn Liverpool hafa verið ansi óhressir með að Pickford hafi ekki fengið rautt spjald og margir brugðið á það ráð að senda honum skilaboð í gegnum samfélagsmiðla.
Þannig segja ensk blöð að morðhótanir séu til skoðunnar hjá lögreglu en þær beinast einnig að Richarlison leikmanni Everton sem fékk rautt spjald í leiknum.
Þá hefur David Coote sem var í VAR herberginu í leiknum verið settur í frystikistuna og mun hann ekkert dæma á næstunni.