Kona ein tapaði í fyrradag sérstæðu dómsmáli gegn tryggingafélaginu Sjóvá – Almennar tryggingar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Málið tengist eldsvoða sem varð um borð í flugvél Wizz Air þann 13. september 2017 er vélin var að fara yfir Mýrdalsjökul. Flugið var frá Keflavík til Póllands. Kviknaði í farangursrými vélarinnar út frá heitri rafsígarettu í hliðarvasa bakpoka.
Flugvélinni var snúið aftur til Keflavíkurflugvallar og lenti þar skömmu síðar en farþegarnir, þar á meðal umrædd kona, voru fluttir til Póllands með flugi næsta dag. „Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakaði atvikið og ákvað að skrifa ekki formlega skýrslu um það en lauk málinu með bókun á fundi stjórnar 4. október 2018,“ segir í dómnum.
Konan hlaut enga líkamsáverka vegna eldsvoðans en varð fyrir andlegu áfalli. Er hún metin óvinnufær sökum geðrænna vandamála sem rakin eru til atviksins.
Konan var með slysastryggingu í frítíma í Fjölskylduvernd 2 hjá tryggingafélaginu og taldi hún sig samkvæmt því hafa rétt til bóta. Ágreiningurinn stendur um hvort tryggingin nái yfir geðrænt tjón eða eingöngu líkamlega áverka. Tryggingafélagið hafnaði bótaskyldu á grundvelli þess að tryggingin næði einungis yfir líkamlegt tjón. Stefnandi heldur því hins vegar fram að geðrænt tjón falli undir líkamstjón, eða eins og segir í dómnum um lagarök stefnanda:
„Líkamstjón í skilningi vátrygginga- og skaðabótaréttar sé ekki einvörðungu bundið við líkamlega áverka heldur einnig andleg einkenni. Ekki sé hægt að greina frá öðru líkamlegu tjóni geðrænt tjón, sem verði á hugarstarfi viðkomandi tjónþola sem fram fari innan líkama hans, þ.e. í heilanum sem sé innan líkamans og sé byggður upp úr sama erfðaefni og handleggir og fótleggir manna. Einkenni áfallastreituröskunar og þunglyndis hafi verið metin til miskastiga og varanlegrar örorku sem varanlegur líkamsáverki í skaðabótamálum. Geðrænt tjón teljist því vera líkamstjón.“
Þó að Héraðsdómur hafni ekki þeim rökum að geðrænt tjón geti fallist undir líkamstjón var kröfu konunnar hafnað í dómsniðurstöðu. Konan hafi hvergi verið nærri eldinum í flugvélinni og henni hafi ekki staðið sérsök ógn af eldinum. Því séu skilyrði bótaskyldu samkvæmt skilmálum umræddrar vátryggingar ekki uppfyllt.
Tryggingafélagið var því sýknað af kröfum konunnar en málskostnaður var felldur niður.