Húsráðandi kom að manni að reyna að brjótast inn í húsið hans í hverfi 108 laust eftir kl. 15 í dag. Þetta kemur fram í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ein rúða var brotin. Meintur innbrotsmaður reyndi að flýja á hlaupum en var handtekinn. Hafði hann öxi meðferðis í bakpoka. Maðurinn er einnig eftirlýstur vegna fjölda annarra brota. Var hann vistaður í fangageymslu lögreglu.
Tilkynnt var um líkamsárás utandyra í hverfi 203 um hálfellefuleytið í morgun. Maður og kona réðust á unga konu og veittu henni áverka. Árásarþola var ekið á slysadeild. Málið er í rannsókn en ýmsar upplýsingar liggja fyrir samkvæmt tilkynningu frá lögreglu.