Landsréttur staðfesti í gær nýlegan dóm Héraðsdóms Vesturlands í máli manns sem var nauðungarvistaður á geðdeild í 21 dag. Maðurinn vildi hnekkja úrskurði sýslumanns um vistunina og höfðaði mál til ógildingar ákvörðuninni.
Sýslumaður samþykkti beiðni um nauðungarvistun mansins á grundvelli 19. greinar lögræðislaga frá árinu 1997. Vísaði hann þar í vottorð geðlæknis og taldi af því ljóst að maðurinn væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi sem hann hefði glímt við í mörg ár. „Hafi hann ekki tekið lyf í um ár og ástand hans farið versnandi mánuðina á undan. Hann sé nú í bráðu geðrofi, sé ör, og hafi verið æstur og ráðist á fólk í þessum veikindum. Telji læknirinn hann geta verið hættulegan öðrum í þessu ástandi og vera í bráðri þörf fyrir innlögn á geðdeild. Loks segir í vottorðinu að nauðungarvistun sé óhjákvæmileg til að koma í veg fyrir að hann valdi öðrum skaða og til að koma við nauðsynlegri meðferð við hans geðsjúkdómi, ella geti ástand hans versnað enn frekar, segir í dómi héraðsdóms í fyrra.“
Geðæknir gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að maðurinn hefði mikil geðrofseinkenni og væri hættulegur öðru fólki. Hann væri ógnandi í garð starfsmanna spítalans og hefði ekkert innsæi í sjúkdómsástand sitt. Taldi geðlæknirinn óhjákvæmilegt að vista manninn á geðdeild í 21 sólarhring.
Lögræðislögin má lesa hér. Í 19. grein þeirra segir að sjálfráða maður verði ekki vistaður nauðugur á sjúkrahúsi. Þó geti læknir ákveðið „að sjálfráða maður skuli færður og vistaður nauðugur í sjúkrahúsi ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Sama gildir ef maður á við alvarlega áfengisfíkn að stríða eða ofnautn ávana- og fíkniefna.“
Enn fremur segir að með samþykki sýslumanns megi vista sjálfráða mann gegn vilja sínum í sjúkrahúsi til meðferðar í allt að 21 sólarhring frá dagsetningu samþykkis sýslumanns.
Maðurinn áfrýjaði úrskurði héraðsdóms til Landsréttar sem staðfesti dóm héraðsdóms í gær, þann 20. apríl.
Dóm Landsréttar og héraðsdóms í málinu má lesa hér.