Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna birti í dag Facebook-færslu þar sem hann lýsir yfir óánægju sinni á Bílastæðasjóði.
„Velkominn í Hlíðarnar. Það hlýtur að vera orðið ansi hart í ári hjá ykkur fyrst þið eruð farin að sekta okkur fyrir að fullnýta innkeyrslurnar okkar. Það eitt og sér á þið séuð mætt í hverfið er eiginlega frétt til næsta bæjar. Það er þó spurning hvort við þurfum ekki fara okkur aðeins hægar í þessu nýja sambandi þar sem fyrstu kynnin boða ekki gott.“
Breki segir stöðuvörð hafa sektað nágranna sinn fyrir að leggja bíl fyrir framan eigin innkeyrslu. Þeta þykir Breka afar sérstakt.
„Stöðuvörður á ykkar snærum sektaði í gær nágranna minn fyrir að leggja bílnum sínum fyrir framan eigin innkeyrslu í stað þess að taka upp almannabílastæði, sem er af skornum skammti í hverfinu. Bíllinn hindraði engan, nema eigandann sjálfan.
Granninn hélt eðlilega í fyrstu að þetta væri grín, en eftir að hafa sett sig í samband við sjóðinn var honum gert ljóst að svo var ekki.“
Breki spyr sig hvort að þetta sé ný stefna hjá bílastæðasjóði eða sérstakt ástand vegna COVID-19.
„Ætli sé um stefnubreytingu að ræða hjá sjóðnum eða skammtíma kórónuveirutengdar aðgerðir vegna þess hversu lítið er að gera í bílastæðahúsum eða á gjaldtökusvæðum?“