Í gærkvöldi handtók lögreglan á Vestfjörðum þrjá einstaklinga, tvo karlmenn og eina konu, sem ók um á bifreiðum sem hafði verið stolið fyrr um kvöldið. Bílunum hafði verið stolið í Reykhólasveit, en fólkið var að keyra á Vestfjarðavegi í Sælingsdal. Þetta kemur fram í Facebook-færslu lögreglunnar.
Þegar að lögregla kom á vettvang hafði annari bifreiðinni verið velt, en ökumaður hennar hlaut engin meiðsl af. Þau voru í kjölfarið öll færð í fangageymslur og verða yfirheyrð í dag.
Ökumennirnir eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þá eiga þremenningarnir að hafa ráðist á mann svo hann hlyti áverka af, en hann ætlaði sér að veita þeim hjálparhönd við það að losa festan bíl þeirra. Þau eiga í kjölfarið einnig að hafa stolið bíl mannsins.