Íbúar á þremur hjúkrunarheimilum í Milwaukee fengu óvænta og kærkomna heimsókn síðastliðinn páskadag.
Rétt eins og víða annars staðar hafa íbúarnir þurft að dúsa í sóttkví undanfarnar vikur vegna Covid-19 faraldursins. Það var Megan Nicholson sem starfar hjá The Humane Society í Wisconsin sem tók sig ásamt vinkonu sinni Robin Geurnsey og heimsótti eldri borgara á þremur hjúkrunarheimilum í borginni. Með í för voru íslenskir hestar.
Bandaríkin hafa á seinustu árum orðið mikilvægur markaður fyrir íslenska hestinn og þykir eftirsóknarverður, meðal annars vegna þess að er eina tegundin sem hefur tileinkað sér fimm gangtegundir.
„Í skugga ótta og óvissu sem Covid-19 hefur fært okkur, þá langaði mig að létta af áhyggjum fólksins og veita þeim hamingju sem geta ekki hitt fjölskyldur sínar. Páskarnir eru allajafna fjölskylduhátíð og þess vegna fannst mér þetta verið kjörið tækifæri til að breiða út ást og umhyggju,“ segir Megan í samtali við bandaríska fréttavefinn CBS 58.
„Þar að auki, hver elskar að sjá hest með kanínueyru? Það er eitthvað töfrandi við hesta. Þeir eru táknmynd frelsis, visku og lífsþorsta. Dýrin eru hluti af fjölskyldunni og við vildum deila með öðrum þessari ást ástinni sem hestarnir sýna okkur.“