Sandra Líf Þórarinsdóttir Long, sem leitað hefur verið að frá því aðfaranótt laugardags, fannst látin á þriðja tímanum í dag í fjörunni á Álftanesi, ekki langt frá upphafsstað leitarinnar um helgina.
Ekki er talið að andlát hennar hafi borið að með saknæmum hætti.
Sandra Líf var tæplega 27 ára og búsett í Hafnarfirði.
Fjölskylda hennar vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem veittu aðstoð við leitina.
Síðast sást til Söndru upp úr kl. 18 á skírdag er hún kvaddi vinkonu sína. Í eftirlitsmyndavélum sést Sandra aka inn á Álftanes. Hún lagði bíl sínum skammt frá Kasthúsatjörn og skildi eftir í honum bíllyklana og snjallsíma sinn.
Sandra stundaði nám í þjóðfræði við Háskóla Íslands og starfaði sem þjónn meðfram náminu.
DV vottar öllum aðstandendum Söndru innilega samúð sína.