Einar Þór Sigurðsson skrifar frá Istanbúl:
Viðar Örn Kjartansson, framherji íslenska landsliðsins fór ekki með liðinu yfir til Istanbúl í dag. Hann liggur veikur í Antalya, þar sem liðið var við æfingar.
Ísland mætir Tyrklandi í undankeppni EM á morgun. Það stefnir alt í það að Ísland fari í umspil um laust sæti á Evrópumótinu, næsta sumar. Ísland á veika von um að fara beint inn á Evrópumótið, til þess þarf Ísland að vinna Tyrkland á morgun og Moldóvu á sunnudag. Einnig þurfa Tyrkir að missa stig gegn Andorra á sunnudag.
Viðar kom veikur til Tyrklands frá Rússlandi. „Viðar kom á sunnudag með hita og veikindi og hefur ekki geta æft,“ sagði Erik Hamren, landsliðsþjálfari Íslands.
,,Hann er í Antalya og verður ekki með í leiknum. Vonandi verður hann í lagi í leiknum gegn Moldóvu á sunnudag.“