Davíð Þór Viðarsson var gestur í hlaðvarpsþættinum 90 Mínútur á föstudag en þá fór þátturinn í loftið.
Davíð er vel þekktur hér á landi en hann gerði það gott sem atvinnumaður og lék lengi með FH hér heima.
Hann ákvað að leggja skóna á hilluna eftir tímabilið í sumar þar sem FH tókst að komast aftur í Evrópukeppni.
Davíð lék með Lilleström í Noregi á sínum tíma og segir ansi furðulega sögu frá þeim tíma er hann fór í brúðkaup bróður síns.
Davíð hafði spilað reglulega áður en hann tók sér einn dag í frí og hafði það verulega slæm áhrif.
,,Svo er brúðkaup hjá bróður mínum og ég segi við þjálfarann, því ég var búinn að biðja um frí og ég var ekkert að spila og hann segir að það sé ekkert mál,“ sagði Davíð.
,,Ég fer til hans og segi við hann að það sé brúðkaup á laugardeginum og að ég myndi missa af æfingunni á laugardaginn, það var leikur á sunnudag. Ég sagðist ætla koma aftur á laugardagskvöld.“
,,Ég spurði hvort þetta myndi hafa einhver áhrif á stöðu mína í liðinu, hann segir nei nei nei. Svo fór ég í brúðkaupið, kem aftur og þá er liðið tilkynnt og ég er á bekknum. Ég var 19 ára þarna og ef þetta hefði gerst þegar ég var eldri hefði ég brugðist allt öðruvísi við.“
,,Það eina sem ég segi er: ‘já ókei, af hverju?’ – Hann sagði að þessi hentaði betur í þennan leik. Frábær útskýring. Svo kemst ég ekki aftur í byrjunarliðið í einhverja 4-5 leiki og svo fótbrotnaði ég.“