Ein af fréttum vikunnar var að Bjarnheiður Halldórsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, var langt frá því sátt við flutning tónlistarmannsins Auðar á laginu Freðinn á Menningarnótt. Með laginu fannst Bjarnheiði Auður gera vímuástand eftirsóknarvert fyrir börn og ungmenni. Því er ráð að bæta í sarpinn fimm lögum sem ungmenni ættu alls ekki að hlusta á ef marka má rök Bjarnheiðar.
Það getur varla verið hollt fyrir börnin að hlusta á Ladda syngja um að teiga bjór úr líterskrús, fara á nektarsýningu af bestu gerð og djamma og djúsa á Spáni. Það hlýtur að stefna þeim beint í syndina í Sódómu.
Það væri sama sem dauðadómur fyrir óskabörn þjóðarinnar að setja þetta lag, sem margir telja besta lag Bubba, á fóninn. Lag um dópista sem lepja dauðann úr skel og eiga sér ekki viðreisnar von, sem endar með sorglegum örlögum Rómeós inni á óþekktum bar.
Það er ekki beysin fyrirmyndin sem birtist í laginu Blindfullur með Stuðmönnum – drekkur sig blindfullan og vitlausan og er svo út úr heiminum að hann þarf að styðja sig við staur til að halda haus. Hann kemst meira að segja í kast við lögin út af áfengisvímunni.
„Drekk burt ógleðina með flösku af rommi sem var send hingað,“ er ein af fyrstu línunum í þessu lagi rapparans Erps Eyvindssonar, eða Blaz Roca. Áfengi er reyndar mikið yrkisefni Erps, þá sérstaklega romm, en seinna í Viltu dick? heldur hann áfram í áfengisvímunni: „Ég vil ekki vinna ég vil bara drekka drykk. Og slæda uppá frænku og segja: „bitch viltu dick?’““
Í þessu lagi rappar Gísli Pálmi um að flýja raunveruleikann í faðm fíkniefnanna, en að sama skapi að það sé hættulegur leikur. Hann endar svo á línunum: „Sjáðu, ég er svo fuckin háður. Þarf alltaf að vera undir einhverjum áhrifum. Kalt í mínum æðum. Útúrsveittar sængur. Lyfjakassinn tæmdur. Klósett fullt af ælu.“