Danska kvenréttindafélagið benti á það um helgina að með einfaldri leit á internetinu sé hægt að fá allar upplýsingar um málið. Það kom upp 2008 og varð til þess að Kofod dró sig í hlé frá stjórnmálum og sagði af sér öllum pólitískum embættum. Málið snerist um að á páskafundi ungmennahreyfingar jafnaðarmanna stundaði hann kynlíf með 15 ára stúlku. Hann var þá sjálfur 34 ára. Þetta var ekki saknæmt því samkvæmt dönskum lögum er ekki refsivert að stunda kynlíf með ungmennum sem hafa náð 15 ára aldri.
Jótlandspósturinn hefur eftir Ulla Müller, formanni kvenréttindafélagsins, að full ástæða sé til að hafa áhyggjur af málinu vegna „þeirra skilaboða sem fólk úti í heimi les úr því.“ Hún sagði að stór hluti af þróunaraðstoð og mannúðarmálum, sem dönsk stjórnvöld vinna að úti í heimi, gangi út á að tryggja réttindi kvenna. Nú sé sú staða uppi að þegar setið er við samningaborðið með erlendum stjórnmálamanni, sem hafi leitað upplýsinga um Kofod, spyrji hann sig kannski: „Af hverju eigum við að taka ábyrgð þegar þið gerið það ekki?“
Hún sagði að gagnrýninni væri ekki beint að Kofod persónulega heldur snúist þetta um að það sé erfitt að ræða um réttindi kvenna í sumum þeirra samfélaga sem Danir starfa með og það geti orðið erfiðara þegar mál sem þetta dúkka upp. Þetta geti eyðilagt það pólitíska starf sem hefur verið unnið til að vernda ungar stúlkur gegn kynferðisofbeldi.