fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Matur

Þetta er ástæðan fyrir því að þú léttist ekki á ketó mataræðinu

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 5. júní 2019 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ketó mataræðið hefur verið gríðarlega vinsælt undanfarið og virðist ekkert lát á vinsældum þess. Upp hafa sprottið hinir ýmsu hópar um mataræðið á Facebook þar sem fólk skiptist á ráðleggingum og uppskriftum. Margir þeirra sem tileinka sér þennan lífsstíl gera það til að grennast og því kemur það flatt upp á fólk þegar talan á vigtinni hreyfist ekki neitt eftir nokkrar vikur á ketó mataræðinu. Ekki hjálpar þá til að lesa fjölmargar sögur fólks sem hefur náð markmiðum sínum með því að halda kolvetnum í lágmarki.

Á ketó mataræðinu er farið eftir þumalputtareglunni að 60 til 75 prósent af hitaeiningum eigi að koma úr fitu, 15 til 30 prósent úr próteini og 5 til 10 prósent úr kolvetnum. Í grein á vef Women‘s Health er farið mjög vel yfir nákvæmlega af hverju sumir grennast ekki á ketó og hvaða hættur beri að varast.

1. Þú borðar of mikið af hitaeiningum

Þó að það megi úða í sig osti, kjöti og fituríkum vörum á ketó mataræðinu þýðir það ekki að það sé hægt að borða eins mikið og oft og maður vill. Ketó mataræðið er eins konar megrun í hugum margra, en til að grennast þarf að borða örlítið minna af hitaeiningum en líkaminn þarfnast. Mælt er með því að þeir sem vilja grennast skeri niður kolvetni enn frekar og borði meiri fitu en fylgist einnig með hitaeiningafjöldanum yfir daginn. Til eru fjölmörg smáforrit til að gera það, en það vinsælasta er án efa My Fitness Pal. Hægt er að miða við að borða tólf til fimmtán hundruð hitaeiningar á dag.

 

2. Þú borðar of lítið af hitaeiningum

Það hljómar undarlega en of lítið magn af hitaeiningum yfir daginn getur einnig komið í veg fyrir þyngdartap. Þegar að líkaminn fær alltof lítið af kaloríum reynir hann að halda í það sem hann þó fær, sem gerir það að verkum að hægist á efnaskiptum. Margir upplifa minni matarlyst á ketó fyrstu vikurnar en sú tilfinning hverfur á einum til tveimur mánuðum. Hérna gæti líka verið þjóðráð að skrá niður hitaeiningar til að passa að líkaminn fái nóg.

3. Þú hættir í ræktinni

Þeir sem fara á ketó finnar sumir fyrir ketó flensunni – almennum slappleika og þreytur. Margir hætta að fara í ræktina vegna þessa og því getur reynst erfitt að grennast. Svo eru einhverjir sem geta ekki æft á ketó mataræðinu út af kolvetnaskorti. Þá er hægt að grípa til þess að vera á ströngu ketó mataræði suma daga vikunnar og æfa ekki en bæta við kolvetnum á öðrum dögum og fara í ræktina þá daga.

 

4. Þú borðar ekki nóg af trefjum

Vegna lítils magns kolvetna á ketó mataræðinu gæti verið að þú fáir ekki jafn mikið af trefjum og vanalega. Líkaminn þarf trefjar en skortur á þeim getur farið illa með þarmaflóruna. Sú truflun getur hindrað þyngdartap.

5. Þú borðar of mikið af kolvetnum

Hlutföll fæðutegunda á ketó mataræðinu skiptir höfuðmáli til að ná árangri. Mælt er með því að fólk á ketó borði tuttugu til fimmtíu grömm af kolvetnum á dag. Hins vegar átta margir sig ekki á því hve mikið af kolvetnum er í vissum matvælum og borða jafnvel of mikið af þeim. Hér kemur Google að góðum notum þar sem hægt er að fletta upp kolvetnamagni í mat á auðveldan hátt. Þeir sem nota fyrrnefnt smáforrit, My Fitness Pal, ættu líka að finna þessar upplýsingar þar.

6. Þú borðar of mikið prótein

Lítill hluti af því próteini sem við innbyrðum breytist í glúkósa. Glúkósi er sykur og þar af leiðandi kolvetni. Því ættu ketóliðar að forðast að borða alltof mikið af steik og beikoni og einblína frekar á holla fitu í bland, svo sem avókadó, ólífuolíu og hnetusmjör.

7. Jó jó áhrifin

Það reynist mörgum erfitt að halda sig við ketó mataræðið, enda afar strangt. Það er hins vegar verra má að vera á ketó í nokkra daga, hætta í nokkra daga og byrja svo aftur. Og síðan koll af kolli. Þá lætur árangurinn á sér standa og litlar líkur á þyngdartapi.

 

8. Þú færð ekki nóg af B-vítamíni

B-vítamín finnst í heilkorni og skortur á vítamíninu getur valdið þreytu og hindrað þyngdartap. Hins vegar er nóg af ketóvænum mat sem er stútfullur af B-vítamíni, svo sem kjöt, egg og mjólkurvörur sem og dökkgrænt grænmeti, eins og brokkolí og spínat. Ef ekkert af því virkar er þjóðráð að leita til læknis og fá einhvers konar fæðubótarefni.

9. Alltof mikið snarl

Maður er fljótur að bæta á sig ef maður er sísnarlandi. Því ætti að forðast það ef maður vill grennast. Fáðu þér bara eitt snarl á dag á ákveðnum tíma dagsins og reyndu að forðast freistingar. Passaðu einnig að snarlið rústi ekki hitaeiningafjöldanum yfir daginn.

 

10. Þú drekkur ekki nóg vatn

Ónóg vatnsdrykkja getur valdið því að þú borðar meira og þyngist því. Passaðu því að drekka nóg vatn yfir daginn, eða nánar tiltekið 2,7 lítra fyrir konur og 3,7 lítra fyrir karlmenn. Hér kemur handhæg vatnsflaska að góðum notum.

11. Þú flýttir þér alltof mikið

Oft vill það verða svo að þegar að mataræði kemst í tísku að allir hlaupa til og vilja prófa. Þá fara sumir sér geyst og reyna að fara eftir einu og öllu án þess að stíga feilspor. Það getur endað illa. Betra er að kynna sér mataræðið, þróa það áfram smátt og smátt og þannig eiga góðar líkur á að viðhalda lífsstílnum í staðinn fyrir að skipta út öllu í eldhúsinu og ætla að gera allt „rétt“ frá fyrsta degi. Í grein Women‘s Health er einnig tekið fram að ketó eigi ekki að vera langtímamataræði og mælt með því að fólk sé einungis á því í tólf vikur í senn.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa