Heimildarmyndin Game of Thrones: The Last Watch var sýnd á HBO í Bandaríkjunum í gær, en um er að ræða tveggja klukkustunda langa mynd um lokaseríu Game of Thrones og kemur heimildarmyndin úr smiðju breska kvikmyndagerðarmannsins Jeanie Finlay.
Í myndinni er skyggnst á bak við tjöldin, meðal annars fjallað um það sem hélt leikurum gangandi í næturtökur sem stóðu yfir í fjórtán vikur. Matreiðslukonan Leigh McCrum er tekin tali í myndinni en hún var með kaffivagn á tökustað þar sem hún seldi alls kyns snarl fyrir leikarana. Hún komst fljótt að því, eins og hún segir í myndinni, að leikararnir hafi sjaldnast þurft á heilli máltíð að halda heldur fremur einhverju orkumiklu til að halda sér vakandi.
Leigh minnist sérstaklega á samlokuna sem leikararnir í Game of Thrones féllu gjörsamlega fyrir, en það var tilviljun ein sem réði því að samlokan sló í gegn. Leigh bjó sér til samlokuna einn dag og í þann mund sem hún lagði sér hana til munns kom manneskja úr tökuliðinu og vildi smakka samlokuna. Þannig spurðist út hve gómsæt samlokan var og fyrr en varði var Leigh sveitt að búa til samlokur hana öllum leikurum og tökuliðinu.
Um er að ræða samloku sem minnir um margt á panini og er áleggið ostur, beikon, kjúklingur, skinka, tómatar, laukur og laukhringir. Samlokan er svo grilluð.
Þá minnist Leigh einnig á það í heimildarmyndinni að á einum tímapunkti í tökuferlinu hafi frostpinnar klárast á tökustað.