fbpx
Mánudagur 06.maí 2024
Fréttir

„Mér blöskrar“ – Hræðilegar og nístingskaldar fréttir: Tekst Íslendingum að útrýma mennskunni?

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Miðvikudaginn 22. mars 2017 11:17

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslendingar gætu orðið fyrir því óláni að verða fyrsta þjóð í heimi sem tekst að útrýma í sér mennskunni.

Þetta segir Þráinn Bertelsson rithöfundur og fyrrverandi alþingismaður. Þráinn fjallar um fréttaflutning á Íslandi og svo fóstureyðingar á börnum með down-heilkenni. Þráinn segir að ef geimverur myndu fylgjast með fréttum og fjölmiðlum á Íslandi, yrði niðurstaða þeirra að Ísland væri hættulegur og erfiður staður þar sem fólk væri vont við hvert annað, og teldi mannlegt samfélag undirlagt af illindum, vonsku, svindli, lygum, slysum og hörmungum.

„ … og lítið fari fyrir gæskunni, þótt finna megi smáfréttaklausur um fegurð og góðsemi ef vel er gáð innan um sorann og svínaríið.“

Segir Þráinn að ekki sé hægt að hætta að fjalla um það vonda í heiminum en hættan væri sú að fólk verði ónæmt fyrir vonskunni og álykti í kjölfarið að hún verði sjálfsagður partur af veröldinni.

Hvorki sjúkdómur né vansköpun

„Stundum kemur það þó fyrir enn þann dag í dag að ég les fréttir sem eru svo hræðilegar og nístingskaldar og afhjúpa myrkustu afkima mannlegrar náttúru þannig að mér blöskrar,“ segir Þráinn og bætir við að hann hafi lesið grein á Stundinni þar sem fyrirsögn og undirfyrirsögn var þessi:

„Downs-heilkennið er hvorki sjúkdómur né vansköpun, þrátt fyrir að vera sett undir þá skilgreiningu í lögum um fóstureyðingar.“

Mynd: Skjáskot – Youtube

Það hafi Þórdís Ingadóttir, formaður Félags áhugafólks um Downs-heilkennið, áréttað og kallað eftir aukinni umræðu í samfélaginu og á vettvangi stjórnmála um þá staðreynd að nær öllum fóstrum með Downs-heilkenni sé eytt á Íslandi. Segir Þráinn að þetta séu skelfilegar fréttir sem staðfesti að Íslendingar séu ekki á góðum stað í tilverunni.

„Það er svo margt annað sem gæti verið betra og skynsamlegra fyrir okkur og aukið hamingju og velferð okkar og alþjóðlegan orðstír meira en að setja heimsmet í að eyða fóstrum barna með downsheilkenni,“ segir Þráinn og bætir við að lokum:

„Þjóð sem hugsar jafnmikið um efnisleg gæði og við Íslingar gerum um þessar mundir og að sama skapi lítið um að ávaxta okkar andlegu sjóði, mannúð, menningu og tungu gæti orðið fyrir því óláni að verða fyrsta þjóð í heimi sem tekst að útrýma í sér mennskunni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt