Embla Ósk Ásgeirsdóttir er í þagnarbindindi til að vekja athygli á þjáningu dýranna. Með þagnarbindindinu vill Embla hvetja fólk til að velja frið yfir ofbeldi og velja vegan fyrir dýrin, umhverfið og heilsuna.
Sjá einnig: Embla Ósk ætlar í viku þagnarbindindi: „Ef dýrin myndu tala þá myndu þau segja okkur að hætta“
Embla á fjögurra ára gamlan son, Henrik, með kærasta sínum Styrmi Jarli. Hægt er að fylgjast með Emblu á Instagram, @embla_osk.
Hún er nú á fimmta degi þagnarbindisins og ákvað DV að heyra í henni og sjá hvernig gengur. Reglur þagnarbindisins eru þær að Embla má ekki tala né gefa frá sér hljóð, en hún má skrifa. Viðtalið fór því fram í gegnum tölvupóst.
View this post on Instagram
Hvernig er þagnarbindindið búið að ganga?
„Þetta hefur algjörlega farið fram úr mínum væntingum. Það er búið að ganga svakalega vel. Ég bjóst alls ekki við því að þetta yrði svona auðvelt,“ segir Embla.
„Áður en ég fór í þagnarbindindi æfði ég mig að tala með höndunum og með munninum (án þess að gera hljóð) og það gekk illa. Enginn skildi mig og ekki ég sjálf heldur. En núna er þetta ekkert mál. Styrmir skilur mig eiginlega 100 prósent þegar ég hreyfi munninn sem gerir þetta líka miklu auðveldara fyrir mig.“
Hvað er búið að vera erfiðast?
„Ég hef ekki upplifað nein erfiði sem kemur mér mjög á óvart. Áður en ég byrjaði fékk ég innilokunarkennd við tilhugsunina að geta ekki talað en ég hef ekki enn fundið þá tilfinningu. Ég held að ég hafi bara verið ótrúlega tilbúin og þetta sé eitthvað sem líkaminn var að þrá, hvíld.
Ertu búin að segja eitthvað óvart?
„Fyrsta daginn missti ég 3-5 sinnum orð út úr mér. Ég er í fríi þessa vikuna, heppin að vera í vaktavinnu,“ segir Embla og segir frá skiptunum sem hún missti eitthvað úr sér fyrsta daginn:
„Ég fór í bað um morguninn og var í þvílíkri slökun. Styrmir kallaði tvisvar sinnum á mig og hafði gleymt að ég gæti ekki svarað honum. Mér brá svo að ég sagði já. Síðan fórum við í bæinn og ég sofnaði á leiðinni og hrökk tvisvar sinnum við að segja Styrmi að hægja á sér eða lækka í útvarpinu. Síðan var Emil kötturinn okkar eitthvað að leika sér og beit í fótinn á mér og mér brá og sagði nafnið hans. Þannig einu skiptin sem ég hef sagt eitthvað óvart er af því ég er hálf sofandi eða mér bregður. En svo held ég bara strax áfram í þagnarbindinu. Eftir fyrsta daginn hef ég ekkert misst út úr mér.“
Hvað finnst syni þínum um þetta?
„Henrik er 4 ára núna og ég held ég hefði aldrei gert þetta ef hann væri aðeins yngri. Hann er ótrúlega skilningsríkur og er ekkert að kippa sér upp við það að ég tali ekki. Hann spyr mig stundum fyndna spurninga svo ég hristi eða kinka kolli það finnst honum algjört sport. En ég var alls ekki að búast við að hann yrði svona góður með þetta,“ segir Embla.
„Ég hafði ímyndað mér að það myndi koma tímapunktur sem hann ætti eftir að finnast þetta mjög erfitt. Kannski mun sá tími koma en ég efast um það. Við vorum ein saman heima í allan gærdag, frá 9-18, og það gekk mjög vel.“
View this post on Instagram
Hvernig er að vera ein með honum?
„Planið var að ég myndi ekkert vera ein með honum. En aðstæður leiddu til þess að við vorum tvö saman heima á miðvikudaginn. Ég treysti alveg honum og mér í það. Það gekk ótrúlega vel, við skiljum hvort annað vel og erum að tengjast betur en nokkurn tíma ef eitthvað. Það kom smá misskilningur og ég gat ekki alveg tjáð mig nógu vel að við værum bara að fara í göngutúr en ekki lónið sem við erum með hérna heima en það reddaðist fljótt.“
Ertu búin að fara eitthvert eins og út að borða eða út í búð, ef svo er hvernig virkaði það?,
„Ég er búin að fara að versla í matinn, fara út að borða, til Reykjavíkur og á æfingar alla dagana. Styrmir hefur oftast verið með mér þannig það er ekkert mál. Annars segja svipir oft meira en þúsund orð. Það vita líka miklu fleiri af þessu heldur en ég geri mér grein fyrir. Ég er með skrifað í ‚notes‘ í símanum að: „Ég er í viku þagnarbindindi til að vekja athygli á þjáningu dýra og hvet fólk til að velja frið yfir ofbeldi. Fyrir dýrin, jörðina, og heilsuna veldu vegan.” Ég hef sýnt það einu sinni annars finnst mér fólk bara vita af þessu.“
Hvað ertu búin að læra á þessum dögum?
„Ég er bara búin að vera meðtaka svolítið hlutina í kringum mig. Ég er alltof mikið að skipta mér af samskiptum hjá Henrik og Styrmi sem ég er mjög meðvituð um og hlakkaði til að þegar ég færi í þagnarbindið myndi ég ekki geta það því auðvitað er það bara verra. Þannig þetta er líka að styrkja tengslin þeirra tveggja sem er mjög fallegt. Ég held ég verði reynslunni ríkari þegar vikan klárast og rólegri yfir öllu.“
Er þetta að skila sér einhverju?
„Ég held að þetta sé klárlega að skila sér einhverju þar sem fólk hefur greinilega tekið eftir þessu. Miklu fleiri en ég geri mér grein fyrir sem er frábært. Því eina sem ég vil gera er að vekja athygli á þjáningu dýranna og við horfum á hana með alvarlegri augum og gerum eitthvað í þessu. Við getum ekki gert neitt þegar við erum ekki upplýst þannig þegar við vitum betur getum við gert betur.“