fbpx
Föstudagur 04.júlí 2025
Matur

Alexandra ræktar andlegu hliðina: „Ég trúi ekki á kúra því mér finnst þeir dæmdir til að mistakast“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 15. mars 2019 10:00

Heilbrigð sál í hraustum líkama.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég myndi segja að ég væri matgæðingur þó ég gefi mér ekki góðan tíma í að dunda mér í eldhúsinu. En mér finnst gaman að dóla mér í eldhúsinu og elda góðan mat,“ segir Alexandra Sif Nikulásdóttir, þjálfari hjá FitSuccess og förðunarfræðingur.

Alexandra gengur undir nafninu Ale Sif á samfélagsmiðlum, en hún er með opin Instagram reikning þar sem hún deilir góðum ráðum tengdum mataræði, hreyfingu, förðun, skipulagi og sínu daglega lífi. Þá er hún einnig hluti af teymi kvenna á síðunni framinn.is þar sem hún deilir ýmsum ráðum og uppskriftum. Okkur fannst því tilvalið að plata Alexöndru í smá matar- og heilsuspjall.

 

View this post on Instagram

 

A post shared by Alexandra Sif Nikulásdóttir (@alesif) on

Forðast allar öfgar

Alexandra átti langan og farsælan feril í fitness um nokkurra ára skeið sem hún segir hafa opnað fyrir sér margar spennandi dyr. Hún trúir ekki á matarkúra og telur að jafnvægi í mataræði sé lykill að velgengni og vellíðan.

„Ég trúi ekki á kúra því mér finnst þeir dæmdir til að mistakast. Það er oft hægt að ná góðum árangri sé kúrnum fylgt eftir, en mér finnst flestir þeirra þannig gerðir að það er ekki hægt að fylgja þeim til frambúðar. Ég hef að ávallt á bak við eyrað að lifa heilsusamlegum lífsstíl og vel alla jafna hollari kostinn þegar kemur að mat. Mér finnst mjög mikilvægt að hafa gott jafnvægi í mataræðinu og forðast allar öfgar,“ segir Alexandra.

Þeir sem fylgja henni á Instagram hafa tekið eftir að hún er afar hrifin af burrito, en það er einmitt hennar uppáhaldsmatur.

„Ég elska burrito og gæti alveg borðað þannig daglega,“ segir Alexandra og hlær þegar hún er spurð út í besta mat sem hún hafi smakkað. „Svo kemur kjúklingurinn hennar mömmu sterkur inn. Hún lærði að elda hann þegar hún bjó í Ísrael. Hún eldar hann upp úr smjöri og nóg af salti og pipar. Það eru svo alltaf kringlur með öllum mat hjá mömmu og mörgum sem fylgja mér finnst það mjög áhugavert.“

Glæsileg og sjálfsörugg kona.

Faldi möffins í snjóskafli

Aðspurð um sérstaklega eftirminnilega matarminningu kemur móðir hennar einmitt við sögu.

„Ég bakaði einu sinni möffins og gleymdi að setja lyftiduft í þær. Ég var svo hrædd um að mamma myndi skamma mig þegar hún kæmi heim úr vinnunni að ég faldi möffinsið í snjóskafli hjá nágranna,“ segir Alexandra og brosir breitt.

En hvort er Alexandra betri í að elda eða baka?

„Ég myndi segja að ég væri jafngóð í hvoru tveggja. Ég elska að elda og baka og finnst bæði mjög skemmtilegt. Ég er oft fengin til þess að baka fyrir afmæli og elska að dunda mér við það. Sérstakt áhugamál er að gera kökur fyrir barnaafmæli. Þá finn ég myndir á netinu af teiknmyndafígúrunni sem er fyrir valinu og geri hana fríhendis,“ segir Alexandra. Hún segist þó ekki vera mikið fyrir kökur heldur séu það önnur sætindi sem heila.

„Ég elska súkkulaði, en er með smá fyndinn smekk þegar kemur að sætindum. Uppáhaldið mitt er til að mynda mjög sætt granóla sem inniheldur súkkulaðibita. Eitt besta sem ég veit er að fá mér þannig með jarðaberja Ab mjólk út á.“

Blanda af ungri og gamalli sál

En hvernig myndi þessi hrausta kona lýsa persónuleika sínum í matarrétti?

„Vá, þetta er smá djúp spurning. Ég er smá flókin týpa. En ég ætla segja burrito því hann er vafinn inn og ég veit fátt betra en að vera heima í kósí, vafin inn í sloppinn minn. Svo er burrito líka fjölbreyttur og bragðmikill – þegar maður bítur í hann kemur ýmislegt í ljós. Ekki það að þú getir bitið í mig og það komi ýmislegt í ljós hjá mér en ég held að það komi ýmislegt í ljós þegar fólk kynnist mér betur. Ég er svona blanda af mjög ungri og gamalli sál. Það fer svolítið eftir aðstæðum hvor sálin ég er. Mér finnst svo mikilvægt að gleyma ekki að hafa gaman af lífinu þó svo að maður eldist.“

Alexandra ásamt Heklu Skjaldardóttur, starfsmanns FitSuccess.

Einelti í æsku breytti öllu

Alexandra er nýorðin þrítug og býr í Urriðaholti ásamt kærasta sínum, Arnari Frey Bóassyni. Fyrir stuttu tröllreið svokölluð tíu ára áskorun samfélagsmiðlum og tók Alexandra þátt í henni. Hún birti myndir af sér áður en hún byrjaði að æfa hjá FitSuccess og síðan mynd af sér í dag. Við myndirnar skrifaði hún einlægan pistil um að hún hafi virkilega náð að elska sjálfa sig eftir að hún byrjaði að æfa. Hún hafi ekki byrjað að æfa til að grennast, heldur til að styrkjast líkamlega og andlega.

„Ég var smá efins með að birta þessa mynd og skrifaði textann löngu áður en ég birti hana því mér finnst þessi umræða mjög vandmeðfarin,“ segir Alexandra þegar hún lítur til baka. „Það er mikið í umræðunni í dag að maður eigi að elska sjálfan sig sem ég er svo innilega sammála og hef haft það að markmiði í langan tíma. Mig langaði að deila mínu „self love“ ferðalagi með öðrum þar sem að það tengdist því að hreyfa mig og stunda styrktaræfingar. Mig langaði til þess að sýna það að svona ferðalög geta verið mismunandi og vonandi hvetja einhverja áfram með minni sögu,“ bætir hún við.

https://www.instagram.com/p/BteQrr3A7Jw/

Hún segir einelti í æsku hafa markað djúp spor í hennar andlegu líðan.

„Þegar ég var barn þá var ég með mjög mikið sjálfstraust og elskaði að vera í leikritum og syngja en þegar ég komst á unglingsaldurinn þá hafði heldur betur dregið úr því þar sem ég varð fyrir einelti á yngri árunum. Þannig að ég var með mjög lítið sjálfstraust á eldri árum, sem gerði það að verkum að ég var ekki lengur þessi hressa og ófeimna týpa sem ég var þegar ég var barn,“ segir Alexandra. Hún ákvað að skrá sig í þjálfun hjá FitSuccess árið 2010 og sér ekki eftir því.

„Þá var ég mjög grönn og langaði virkilega að styrkjast líkamlega og byggja mig upp ásamt því að læra betra mataræði,“ segir hún og bætir við að það hafi komið á óvart hve mikið hún þurfti að vinna í sjálfri sér til að ná árangri. „Það sem ég vissi ekki var að það að vinna með líkamlegt form krefst einnig mikillar sjálfsvinnu. Ég þurfti ekki einungis að hreyfa mig og mæta á æfingar heldur vinna í andlegu hliðinni líka. Um leið og ég varð sterkari líkamlega varð ég sterkari andlega og fór að hugsa betur til mín og þykja meira vænt um sjálfa mig. Hlutur sem ég hafði aldrei spáð í áður. Það kenndi mér líka svo miklu meira, eins og ég tala um í umræddri færslu á Instagram,“ segir hún.

„Ég er í dag um 10 kílóum þyngri en þegar ég hóf þetta ferðalag og hef aldrei verið á jafn góðum stað líkamlega og andlega. Á þessum niu árum fann ég, ef svo má segja, barnið í mér aftur, en ég er reyndar enn smá feimin,“ segir hún og brosir.

Lætur ekki pressu ná til sín

Alexandra segir heilsusamlegan lífsstíl, mataræði og hreyfingu skipta sig mjög miklu máli í lífinu, og byrjar hún yfirleitt daginn á morgunæfingu klukkan sex. Hún er vinsæl á samfélagsmiðlum, en finnur hún fyrir einhvers konar pressu á internetinu að líta út eða haga sér á vissan hátt?

„Jú, sú pressa er vissulega til staðar en eitt það mikilvægasta sem ég hef lært er að láta ekki svona pressu ná til sín. Maður getur ekki verið allra og ég er ekki að fara breyta mér til þess að þóknast öðrum – ég kem bara til dyranna eins og ég er klædd,“ segir Alexandra.

Við gátum auðvitað ekki sleppt henni án þess að fá eina uppskrift úr smiðju þessarar kjarnakonu, en uppskriftina má einnig finna á framinn.is.

Hollustu döðlugott

Hráefni:

Girnilegir bitar.

Ferskar döðlur (fást oft í pakka í matvörubúðum)
Hnetusmjör eða möndlusmjör, jafnvel bæði
Banani (val)

Aðferð:

Döðlurnar sker ég fyrir miðju. Ég sker þær ekki alveg í tvennt heldur opna þær og fjarlægi steininn úr þeim. Best að gera þetta við nokkrar í einu því að ég get sagt ykkur það að þetta er fljótt að klárast og því gott að eiga á lager.
Næsta skrefið er að taka teskeið af hnetu eða möndlusmjöri og setja inn í opnu döðlurnar. Ég blanda smjörunum oft saman, það kemur mjög vel út. Stundum bæt ég einni bananaskífu ofan á toppinn fyrir extra bragð, henni má einnig sleppa. Döðlugottið set ég í nestisbox og inn í frystinn. Það þarf ekki að vera lengi í frystinum áður en hægt er að njóta þess. Gott er að leyfa því að standa í smá stund áður en það er notið þess ef það hefur verið lengi í frystinum (nokkra daga).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
29.08.2024

Simmi Vill mætir með nýjung á Kjúklingafestival ársins

Simmi Vill mætir með nýjung á Kjúklingafestival ársins
Matur
03.08.2024

Hvað kostar 12″ pizzan víðs vegar um landið?

Hvað kostar 12″ pizzan víðs vegar um landið?
Matur
22.06.2024

Þetta eru augljós merki þess að veitingastaður er skítugur og þú ættir EKKI að borða þar

Þetta eru augljós merki þess að veitingastaður er skítugur og þú ættir EKKI að borða þar
Matur
18.06.2024

Bjóða upp á hamborgara frá ýmsum heimshornum

Bjóða upp á hamborgara frá ýmsum heimshornum