fbpx
Föstudagur 02.maí 2025
Matur

Jóhannes augnlæknir: 11 fæðutegundir sem viðhalda heilbrigði augans

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 31. janúar 2019 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Er maturinn sem þú borðar góður fyrir augun þín? Flestum dettur gulrætur í hug en það er ekki það eina. Líttu á hvaða fæðutegundir innihalda mestu hollustuna fyrir augun þín og varna gegn helstu augnsjúkdómum. Jóhannes Kári Kristinsson augnlæknir birti eftirfarandi grein á vefnum heilsumál og hefur áður birst á Pressunni.

Fiskur

Fisktegundir eins og lax, túnfiskur, sardínur og makríll innihalda mikið magn af omega-3 fitusýrum, sem verja gegn þurrum augum, hvarmabólgu og augnbotnahrörnun

Dökkgrænt grænmeti

Spínat, grænkál og rósakál eru í hópi þeirra fæðutegunda sem innihalda ríkulegt magn af lutein og zeaxanthíni. Þetta eru mikilvæg litarefni í plöntunum sem hafa sýnt sig að hafa hamlandi áhrif á sumar gerðir augnbotnahrörnunar. Lutein og zeaxanthín er m.a. innihaldsefni í augnbotnavítamínum, s.s. Ultra Macular.

Egg

Eggjarauður innihalda einnig lutein og zeaxanthín, sem eins og lýst er við myndina hér á undan hefur hamlandi áhrif á sumar gerðir augnbotnahrörnunar. A-vítamín er sérlega mikilvægt í auganu og vöntun þess veldur ýmsum augnsjúkdómum. Meðal annars hjálpar A-vítamín við að halda hornhimnu augans heilbrigðri.

Kínóa

Fæða sem inniheldur lágan sykurstuðul, líkt og kínóa, brún hrísgrjón, heilir hafrar og heilhveitibrauð, geta minnkað hættu á augnbotnahrörnun. Þessi fæða er einnig rík af E-vítamíni, sínki og níasín sem hafa einnig góð áhrif á augnheilsu almennt.

Sítrusávextir

Appelsínur, greipávöxtur, sítrónur og ber innihalda mikið magn C-vítamíns sem minnkar líkur á skýmyndun á augasteini og ellihrörnun í augnbotni.

Hnetur

Pistasíuhnetur, valhnetur og möndlur eru stútfullar af omega-3 fitusýrum og E-vítamíni sem hvor tveggja gleðja augað.

Litríkt grænmeti og ávextir

Gulrætur, tómatar, paprikur, jarðarber, maís og melónur innihalda mikið magn A og C vítamíns. Karotenóíðar – þ.e. efnin sem gefa þessum ávöxtum og grænmeti lit sinn – hafa jákvæð áhrif á þó nokkra augnsjúkdóma.

Baunir

Nýrnabaunir, svartaugnabaunir og linsubaunir innihalda bíóflavonóíða og sínk, efni sem geta haldið sjúkdómum í sjónhimnu í skefjum eins og hrörnun í augnbotni.

Lýsi og hörfræolía

Þessi bætiefni innihalda omega-3 fitusýrur og hafa margvísleg heilsubætandi áhrif. Þau geta minnkað einkenni þurra augna og hvarmabólga auk þess sem þau geta dregið úr líkum á ellihrörnun í sjónhimnu.

Sólblómafræ

Þessi meinhollu fræ innihalda gnægð af bæði E-vítamíni og sínki sem hjálpa til við að viðhalda heilbrigði augnanna.

Nautakjöt

Þetta kjöt inniheldur töluvert magn af sínki sem hjálpar líkamanum að frásoga A-vítamín og hefur verndandi áhrif á sumar tegundir ellihrörnunar í sjónhimnu.

 

Höfundur:  

Jóhannes Kári Kristinsson útskrifaðist sem læknir frá Háskóla Íslands árið 1996. Hann útskrifaðist sem augnlæknir frá augndeild Duke háskólans í Norður-Karólínu árið 2000 og lauk síðan sérnámi í sjónlagsaðgerðum með laser og hornhimnulækningum ári síðar frá sömu augndeild. Hann hefur framkvæmt yfir 10.000 laseraðgerðir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
04.04.2024

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu
Matur
03.04.2024

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna