

Fjártæknifyrirtækið Meniga birtir á heimasíðu sinni áhugaverða úttekt á hve miklu Íslendingar eyða í mat, hvar þeir kjósa að versla í matinn og hvað þeir kaupi mest af skyndibita. Þegar litið er á vinsælustu skyndibitastaði landsins samkvæmt Meniga kemur í ljós að Dominos Pizza er langvinsælasti skyndbitastaðurinn og með tvöfalt meiri markaðshlutdeild en KFC, sem vermir annað sætið.
Í þriðja sæti er síðan Subway með sjö prósent markaðshlutdeild þannig að það má segja að amerískar keðjur heilli Íslendinga mest ef marka má þessa úttekt. Serrano er í fjórða sæti með fjögur prósent markaðshlutdeild og Hamborgarabúlla Tómasar og American Style deila með sér fimmta sætinu með þrjú prósent markaðshlutdeild.
Aðrir staðir sem komast á blað á topp tíu lista Meniga eru Hlöllabátar, Nings, Eldsmiðjan og Pizzan, en hér fyrir neðan má sjá topp tíu listann í heild sinni.

Í úttekt Meniga er einnig farið yfir meðalútgjöld í matarinnkaupum, en meðalmanneskja í Meniga eyddi tæplega 610 þúsund krónur í matarinnkaup á síðasta ári, 4 prósentum meira en árið 2017. Vinsælasta matvöruverslunin er Bónus með 27 prósent markaðshlutdeild en á eftir henni kemur Krónan með 19 prósent markaðshlutdeild. Er það sérstaklega tekið fram í úttekt Meniga að Krónan sæki í sig veðrið. Aðrar vinsælar verslanir eru til að mynda Hagkaup, Nettó, Costco og Iceland.

Taka skal fram að um er að ræða meðaltöl allra þeirra sem eru í Meniga, en þjónustuna má nálgast í gegnum stóru bankana þrjá, og að þessi gögn eru ópersónugreinanlegar samantektir.