Þuríður Blær Jóhannsdóttir verður Salka Valka – Farin í frí frá Reykjavíkurdætrum
„Fjölskylduaðstæður mínar voru kannski ekki alltaf hefðbundnar og það hafði örugglega mikil áhrif á mig. Kannski var það veganesti inn í leiklistina því stundum fann maður sér annan heim og ímyndunaraflið fékk lausan tauminn.“
Milli jóla og nýárs mun Borgarleikhúsið frumsýna Sölku Völku í nýrri leikgerð hinnar litháísku Yönu Ross. Þar mun leikkonan Þuríður Blær Jóhannsdóttir leika burðarhlutverkið, sem er hennar stærsta til þessa. Blær, eins og hún er alltaf kölluð, settist niður með blaðamanni DV og sagði frá leiklistarbakteríunni sem byrjaði í leikskóla, upplifuninni af leikhúsinu, þátttökunni í Reykjavíkurdætrum og síðast en ekki síst hvernig Nóbelsskáldið ber ábyrgð á nafni hennar.
Við mælum okkur mót á Kringlukránni, sem hentar vel enda eru bæði Borgarleikhúsið og DV staðsett í verslunarmiðstöðinni sem veitingastaðurinn dregur nafn sitt af. Blaðamaður hafði fram til þessa ávarpað leikkonuna sem Þuríði en var snarlega bent á að hún kysi að vera kölluð Blær. „Mér þykir vænt um Þuríðar nafnið en ég hef alltaf verið kölluð Blær. Þegar mamma gekk með mig þá las hún Brekkukotsannál og fékk hugljómun þegar hún sá nafnið Blær. Hún ákvað þá að hún myndi láta skíra mig þessu nafni og því má segja að Halldór Laxness beri ábyrgð á nafninu mínu. Akkúrat um sama leyti þá var sett bann við nafninu á stúlkur og því mátti ég ekki heita þessu nafni. Amma mín, Þuríður, féll síðan frá þegar ég var nýfædd og þá varð úr að ég var skírð í höfuðið á henni. Í Þjóðskrá hét ég því Þuríður Jóhannsdóttir en var alltaf kölluð Blær,“ segir hún og brosir. Það var ekki fyrr en í lok janúar 2013, að loknu dómsmáli sem nafna hennar Blær Bjarkadóttir háði og vann, sem mannanafnanefnd úrskurðaði að stúlkur mættu heita Blær. Þá bætti Þuríður Jóhannsdóttir því snarlega við nafnið sitt í Þjóðskrá.
Strax í barnæsku ákvað hún að verða leikkona og hefur hvergi hvikað frá þeirri stefnu. „Ég sagðist ætla að verða leikkona strax í leikskóla. Líklega gera það margir en síðan rjátlaðist það aldrei af mér. Ég held að rótin sé sú að mig langaði til þessa að prófa allt, eiga þúsund líf og upplifa alls konar hluti. Það er að einhverju leyti hægt sem leikari. Ég held að þessi þrá mín til að leika og þá helst sem fjölbreyttust hlutverk, gæti jafnvel tengst einhverri dauðahræðslu,“ segir Blær sposk.
Hún er einkabarn foreldra sinna, Ilmar Árnadóttur og Jóhanns V. Gunnarssonar. „Ég hef heyrt að einkabörn og yngstu börn verði oft leikarar. Ég held að það sé af því að við lærum að nota sjarmann sem eins konar verkfæri til þess að ná okkar fram,“ segir hún. Foreldrar hennar skildu að skiptum þegar Blær var ung að árum og hún var alin upp af móður sinni með dyggri hjálparhönd foreldra hennar. „Fjölskylduaðstæður mínar voru kannski ekki alltaf hefðbundnar og það hafði örugglega mikil áhrif á mig. Kannski var það veganesti inn í leiklistina því stundum fann maður sér annan heim og ímyndunaraflið fékk lausan tauminn. Ég tengi sterkt við Sölku Völku að því leyti að ég hef verið í aðstæðum sem eru öðruvísi, utanveltu hvað varðar sambýlismunstur og í skóla. En að sama skapi hef ég aldrei látið það stöðva mig. Ég hef sett mér markmið og fylgt þeim eftir,“ segir Blær og leggur áherslu á orð sín.