fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fókus

Rennur blóðið til skyldunnar fyrir Flateyri

Teitur Björn fetar stoltur í fótspor föður síns en segir það ekki markvisst gert – Tímabært að viðurkenna hagsmuni sjávarbyggða – Grunnþjónusta á að vera fyrir alla

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 29. nóvember 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þess eru nokkuð mörg dæmi að börn þingmanna hafi tekið við kefli foreldra sinna og sest á þing. Þannig er með Teit Björn Einarsson, nýkjörinn þingmann Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Teitur er sonur Einars Odds Kristjánssonar heitins, þingmanns Sjálfstæðisflokksins í sama kjördæmi. Teitur segist samt ekki markvisst feta í fótspor föður síns en er þó stoltur af því sem þeir eiga sameiginlegt. Hjarta hans slær fyrir vestan, á Flateyri, og hann er tilbúinn til að leggja sitt af mörkum fyrir framgang æskuslóðanna.

„Ég er fæddur í Reykjavík, en er uppalinn á Flateyri og er Vestfirðingur í húð og hár. Föðurætt mín er að vestan og hafði sterkar rætur í samfélaginu. Langalangafi minn keypti jörðina Eyri um miðja nítjándu öld og hóf þar þilskipaútgerð. Síðan þá hefur fjölskylda mín búið þar með einum eða öðrum hætti. Ég lít því á mig sem Vestfirðing og landsbyggðarmann. Þótt ég hafi seinni ár verið búsettur á höfuðborgarsvæðinu, fyrst í menntaskólanámi, svo háskóla og við önnur störf, þá nýtti ég alltaf öll tækifæri til að fara vestur. Á sumrin fór ég á sjó og vann við fiskvinnslu fyrir vestan. Vegna vinnunnar er ég nú allt að því með annan fótinn fyrir vestan, mér til mikillar ánægju. Römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til.“

Snjóflóðið markaði alla

Árið 1995 settist faðir Teits, Einar Oddur Kristjánsson, á þing sem þingmaður Vestfjarða og hélt því fjölskyldan annað heimili í Reykjavík að vetrum. „Ég tók tíunda bekk í Hagaskóla og það blasti nokkuð við að feta slóðina í Menntaskólann í Reykjavík, enda fannst mér hann heillandi og hann hafði orð á sér fyrir að vera góður skóli, sem hann var. Félagsmálin heilluðu auk þess sem námslega var skólinn auðvitað sterkur. Þetta var góður tími, ég kynntist góðu fólki sem er vinir mínir enn í dag.“

Þann 26. október árið 1995 féll stórt snjóflóð á byggðina á Flateyri. Tuttugu manns týndu lífi í flóðinu og olli það einnig gríðarlegu eignatjóni. Flóðið hafði mikil áhrif á Teit og hans fjölskyldu, líkt og Flateyringa alla. „Snjóflóðið, þessi hræðilegi atburður, markaði alla Flateyringa fyrir lífstíð meira og minna. Það skildi eftir sig gríðarlega stórt sár í samfélaginu og auðvitað einkum hjá þeim sem misstu nána ástvini og fjölskyldu. Þetta hefur mótað mína kynslóð og minn vinahóp frá Flateyri mikið. Við áttuðum okkur ekkert á því þá kannski, við upplifðum vissulega öll mikla erfiðleika, en það hefur síðan komið í ljós hvað þessi vinahópur, þessir árgangar, hafa haldið mikið saman. Það er mikil samstaða og kærleikur milli allra og það hefur haldist allt til þessa dags. Ég held að það hafi bæst ofan á þá nánd sem lítil samfélög eins og Flateyri skapa. Þessi atburður var svo hræðilegur að það er erfitt að lýsa því hvað þetta fékk mikið á alla. Það er kannski fyrst núna sem sumir eru að byrja að opna sig og ræða atburðina. Það er ekkert sem undirbýr mann fyrir svona hörmungar. Ég held að Flateyringar hafi staðið sig vel sem hópur, sem samfélag, við að vinna úr þessu.“

Minning um þögn

Teitur segir að hann hafi verið staddur heima við í Reykjavík þegar að flóðið féll. „Það var enginn í minni nánustu fjölskyldu sem lenti í flóðinu eða hlaut af því beinan skaða. Við vorum lánsöm hvað það varðar. Ég upplifði þetta samt mjög sterkt. Ég man eftir símtali, það var náinn samstarfsmaður föður míns sem hringdi um nóttina og ég svaraði í símann. Ég heyrði þegar hann spurði eftir föður mínum, á rödd hans, að eitthvað mjög alvarlegt hafði gerst. Ég man eftir að hafa vakið föður minn, hann fór í símann og sagði halló. Svo sagði hann ekki neitt annað heldur hlustaði bara. Þetta er fyrsta minning mín um að þetta hafi gerst, þetta samtal þeirra tveggja sem fól í sér þögnina eina á öðrum enda línunnar.
Ég veit að þetta fékk gríðarlega á foreldra mína og alla í kringum mig. Þau, sem og allir aðrir, gerðu sitt besta til að hefja uppbyggingu, hlúa að þeim sem höfðu misst ástvini sína og eignir. Ég fullyrði að Flateyringar vita að það var margt og mikið vel gert og eru mjög þakklátir öllum sem að komu. Þeim sem tóku þátt í björgunaraðgerðum, þeim sem hér fyrir sunnan tóku á móti fólki sem þurfti að hefja líf sitt að nýju, söfnunina sem fór af stað og alla þá aðstoð sem var veitt, fyrir það eru Flateyringar mjög þakklátir.“

Teitur segir kominn tíma til að viðurkenna að taka þurfi tillit til byggðasjónarmiða þegar hlutast er til um sjávarútveginn.
Styrkja þarf byggðirnar Teitur segir kominn tíma til að viðurkenna að taka þurfi tillit til byggðasjónarmiða þegar hlutast er til um sjávarútveginn.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Pólitíkin genatísk veila

Teitur gerðist snemma áhugasamur um félagsmál og pólitík. „Ég hef alltaf haft þörf fyrir að taka þátt í félagsmálum. Bæði er það gefandi og skemmtilegt og auk þess hittir maður skemmtilegt og gott fólk. Þessi áhugi minn virðist mér hafa verið í blóð borinn en auðvitað hefur uppeldið að einhverju leyti haft áhrif. Móðir mín var stöðugt að ýta á eftir mér að taka þátt í félagsmálum, íþróttum, tónlist, leiklist, og ég bý að því. Ég hef sagt í gamansömum tón að pólitískur áhugi sé að einhverju leyti genatísk veila sem maður verður að lifa með.“

Spurður hvort hann hafi einhvern tímann tekið þátt í pólitísku starfi annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins svarar Teitur neitandi. „Ég hef verið viðloðandi þátttöku í starfi Sjálfstæðisflokksins meira og minna alveg frá því að ég tók þátt í prófkjöri sem faðir minn fór í 1994. Ég komst fljótt að því að það sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir væri það sem stæði næst mínum skoðunum. Eftir því sem árin hafa liðið hefur sú skoðun mín styrkst. Þess vegna ákvað ég svo að gefa kost á mér í framlínu flokksins, gefa kost á mér í prófkjöri fyrir alþingiskosningar.
Árangurinn var mjög ánægjulegur, hann var góður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í heild og mjög góður í Norðvesturkjördæmi. Við frambjóðendur skynjuðum mjög sterkt að okkar málflutningur hafði góðan hljómgrunn. Ég vissi að þriðja sætið væri svokallað baráttusæti og það var einkar ánægjulegt þegar í ljós kom að niðurstaðan var betri en skoðanakannanir höfðu bent til skömmu fyrir kosningar.“

Lítur þú, með þínar vestfirsku rætur, á þig sem meiri þingmann Vestfjarða en annarra svæða á landinu?
„Nei, ég lít á mig sem þingmann alls Norðvesturkjördæmis. Kjördæmið er mjög víðfeðmt, nær frá botni Hvalfjarðar að Siglufirði. Það eru hátt í þrjátíu byggðarkjarnar í kjördæminu, byggðarlögin eru misjöfn, misvel í sveit sett og hagsmunir þeirra eru misjafnir. Þau eiga þó eitt sameiginlegt, mikilvægi þess að þar sé traust atvinnulíf og aðstæður fyrir atvinnuuppbyggingu. Það er sterk krafa um allt kjördæmið um styrkingu á grunnþjónustu af hendi ríkisvaldsins. Samgöngur vega mjög þungt sem forsenda allra framfara á svæðinu, hvort sem það er atvinnuuppbygging eða styrking á samfélaginu í heild. Hlutverk þingmanna kjördæmisins er að vera fulltrúar allra íbúa á svæðinu, ekki eingöngu ákveðinna svæða eða eingöngu þeirra sem greiddu manni atkvæði, heldur allra íbúa.“

Ríkið á að fjármagna grunnþjónustu

Þú segir að þetta sé krafan, uppbygging innviða. Ertu sammála þeirri kröfu? Hvernig fer það saman við afstöðu Sjálfstæðisflokksins, og þína, um minni afskipti ríkisvaldsins?
„Ég er hjartanlega sammála þeirri kröfu. Meginstefnumarkmið Sjálfstæðisflokksins eru mjög skýr. Atvinnulífið dregur áfram velferðarvagninn og það verður engin velferð án verðmætasköpunar. Það er fólk sem býr til verðmæti og svo er það hið opinbera sem skattleggur þau verðmæti. Það er stefna Sjálfstæðisflokksins að ríkið hafi mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að ákveðinni grunnþjónustu, svo sem í heilbrigðiskerfinu. Aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu á að vera óháð efnahag og búsetu, hið sama á við um jafnrétti til náms, svo eitthvað sé nefnt. Þessi verkefni eru á hendi ríkisins og það er ekki í andstöðu við stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þjónusta ríkisins á að vera í boði fyrir alla íbúa þessa lands. Verkefnið í Norðvesturkjördæmi er að styrkja þessa þjónustu.“

Er um þetta sátt innan flokksins, að þessi verkefni skuli vera á höndum ríkisvaldsins?
„Ég tel að það sé það já, það sé breið sátt um þessi grunnatriði. Ef við tökum til dæmis heilbrigðisþjónustuna er full sátt um að ríkið fjármagni þá þjónustu fyrir alla landsmenn. Þar með er ekki sagt að ekki megi skoða leiðir til að nýta fjármuni sem best. Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu hefur hingað til gengið vel, hvort sem það eru tannlækningar eða augnlækningar svo dæmi séu tekin. Aðalatriðið er að ríkið fjármagni þjónustuna. Við eigum að reyna að keppa að því að auka þjónustu og auka gæði hennar og þurfum þá um leið að spyrja hvernig nýtum við fjármunina sem best í þeim efnum. Á vissum sviðum tel ég að við verðum að auka aðkomu einkaaðila en aldrei má falla frá þeirri grundvallarafstöðu að ríkið fjármagni þjónustuna.“

Teitur fetar stoltur í fótspor föður síns en segir það ekki markvisst gert.
Stoltur Teitur fetar stoltur í fótspor föður síns en segir það ekki markvisst gert.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

##Stoltur af föður sínum
Teitur hóf nám í hagfræði en komst að því eftir stuttan tíma að það átti ekki við hann. Hann hvarf því frá námi og réð sig á bát fyrir vestan út þann vetur. „Meðan ég var úti á sjó hugsaði ég mitt ráð og haustið eftir skráði ég mig í lögfræði. Það var nú eiginlega tilviljun að lögfræðin varð ofan á en ég sé ekki eftir því að hafa valið þá leið.“

Blundaði þingmaðurinn aldrei í þér fyrr en nú?
„Nei, langt því frá. Þegar ég var ungur vissi ég ekki, frekar en aðrir, hvað framtíðin myndi bera í skauti sér. Ég hafði ekki fastmótaðar hugmyndir þá, og kannski ekki frekar nú, hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Nú er ég í þessu verkefni, þingmennskunni, og það er það sem mun eiga hug minn allan þetta kjörtímabil. Meira getur maður ekki gert.“

Árið 2007 misstir þú föður þinn, ungur maður. Hvaða áhrif hafði það á þitt lífshlaup?
„Ég var 27 ára þegar að faðir minn lést, sviplega, hann varð bráðkvaddur. Ég er þakklátur fyrir þann tíma sem ég hafði með honum. Pabbi missti sinn föður, afa minn, mjög ungur. Hann hefur verið fjögurra eða fimm ára og rétt aðeins mundi eftir honum. Hann sagði við mig einhvern tímann að honum hafi fundist föðurleysið erfitt og ég held að það hafi mótað hann mjög sem föður. Hann var afskaplega hlýr og góður, gott að leita til hans og við vorum góðir vinir. Ég er þakklátur fyrir þann tíma sem ég átti með honum og hvernig hann nestaði mig út í lífið. Tíminn linar síðan sársaukann. Mér varð hugsað til pabba þegar úrslit kosninganna lágu fyrir og ég hafði náð kjöri á þing í sama sæti, fyrir sama flokk og í sama kjördæmi. Það fyllti mig stolti. En að sama skapi vil ég ekki draga upp þá mynd að ég sé með einhverjum markvissum hætti að feta í hans fótspor. Hann var einstakur stjórnmálamaður sem átti engan sinn líka. Þegar mikið gekk á hafði hann einstakt lag á að halda ró sinni og sýna af sér mikið jafnaðargeð. Hann skaut þá oft inn í að þetta yrði allt í lagi, þetta væru mannheimar og umgangast þyrfti mál með það í huga. Hann hafði líka þá skoðun að öll lög, allar reglur, væru mannanna verk og mannanna verkum mætti breyta.“

Hefur trú á Flateyri

Teitur tók við framkvæmdastjórastöðu hjá fiskvinnslufyrirtækinu Eyrarodda á Flateyri árið 2007, á erfiðum tímum í atvinnulífi Flateyringa. Hann, ásamt aðaleigandanum, rak það fyrirtæki í á fimmta ár áður en nauðsyn rak þá sem að því stóðu til að rifa seglin, ekki voru fjárhagslegar forsendur fyrir áframhaldandi rekstri. „Ég kom að því verkefni þegar atvinnulíf á Flateyri komst í uppnám. Á annað hundrað manns höfðu misst vinnuna og kvótinn allur var seldur á brott. Ég, ásamt öðrum, sem höfðu sterka tengingu við Flateyri, freistuðum þess að reka þar fiskvinnslu. Ég tók þá hlé frá mínum lögmannsstörfum til að sinna því, hafði hugsað mér að sinna þessu í skamman tíma, en það var ljóst þegar af stað var farið að ekki var hægt að hverfa frá verkefninu eftir svo skamman tíma. Það var á brattann að sækja í þessum efnum. Árið 2007 var mikil niðurskurður í þorskveiðum og haustið 2008 varð hrunið og allt fór í frost í íslensku efnahagslífi eins og við þekkjum. Það gerði okkur erfitt fyrir og markaðir í Evrópu voru einnig erfiðir. Á ákveðnum tímapunkti sáum við að ekki yrði lengra komist.“

En þið fóruð inn í þetta vegna tenginga ykkar við byggðarlagið? Ykkur rann blóðið til skyldunnar?
„Vissulega já, að einhverju leyti. En við, sem að þessu komum, vorum þess fullvissir að hægt yrði að byggja upp fiskvinnslu og útgerð á Flateyri. Ég hef enn þá trú að það sé hægt.“

Ertu þá þeirrar skoðunar að það þurfi að aðlaga sjávarútvegskerfið að hagsmunum byggðanna?
„Já, hiklaust. Fiskveiðistjórnunarkerfið sem við búum við er í grunninn nokkuð gott, hvað varðar sjálfbærni í veiðum og umgengni við auðlindina. Það er líka markmið með kerfinu að sjávarútvegurinn sé arðbær og það hefur náðst fram. Greinin skilar arði og sköttum til ríkisins umfram aðrar atvinnugreinar. Ríkið hefur þann rétt að taka fyrir hönd þjóðarinnar ákveðna auðlindarentu. Þriðja stoð kerfisins á að vera að treysta atvinnu og byggð í landinu. Sá þáttur hefur ekki gengið nægjanlega vel. Það er tímabært að við stígum í alvörunni það skref – hagsmunir sjávarbyggða eru þáttur í þessu sem ekki hefur verið horft nægilega vel til. Við þurfum að viðurkenna að byggðir sem háðar eru sjávarútvegi séu þátttakendur sem þurfi að taka tillit til.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“
Fókus
Fyrir 2 dögum

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tók mynd af sér með nýfæddum syninum en það var mamman í bakgrunninum sem stal senunni

Tók mynd af sér með nýfæddum syninum en það var mamman í bakgrunninum sem stal senunni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun