fbpx
Sunnudagur 06.júlí 2025
Matur

Sigurjón bruggar mjöð – alls ekki bjór: „Ég hef tekið að mér að vera sjálfskipuð lögga á Facebook“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Fimmtudaginn 22. nóvember 2018 18:30

Sigurjón er ástríðubruggari.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það sem drífur okkur áfram er fyrst og fremst ástríðan fyrir góðum drykk. Okkur þótti líka tímabært að kynna Ísland aftur fyrir miðinum,“ segir Sigurjón Friðrik Garðarsson. Hann ásamt félaga sínum, Helga Þóri Sveinssyni, stofnaði mjaðargerðina Öldur fyrir ekki svo löngu síðan. Fyrsti mjöðurinn fór í sölu frá þeim síðasta sumar. Nú safna þeir á Karolina fund til að stækka mjaðargerðina.

„Við byrjuðum að selja bara á kútum í sumar. Það voru ekki allir staðir sem gátu tekið við kútum frá okkur þar sem kranakerfi á flestum stöðum eru í eigu Ölgerðarinnar eða Vífilfells í dag. Það eru örfáir staðir sem taka bjóra eða drykki frá öðrum á kútum og selja. Þannig að við erum að stækka við okkur og tappa á flöskur, þar sem við getum selt flöskur á nánast hvaða stað sem er,“ segir Sigurjón og heldur áfram.

Sigurjón og Helgi á bjórhátíðinni á Hólum.

„Söfnunin er sem sagt til að hjálpa okkur að koma okkur fyrir í nýju húsnæði. Hingað til hefur þetta allt verið fjármagnað af okkur sjálfum. Við erum bara tveir venjulegir gaurar sem eru ekki með nógu djúpa vasa. Þannig að við ákváðum að fara þessa leið, ekki bara til að safna pening heldur líka til að vekja athygli á okkur. Ef að söfnunin gengur ekki erum við samt búnir að fá umfjöllun og fólk búið að sjá það sem við erum að gera.“

Bruggað í 2,7 fermetrum

Það er vægt til orða tekið að fullyrða að félagarnir hafi nauðsynlega þurft á nýju húsnæði að halda.

„Við vorum að brugga í Mosfellsbænum, í litlu horni hjá öðru framleiðslufyrirtæki. Þetta horn var 2,7 fermetrar,“ segir Sigurjón og brosir. „Nú erum við komnir í fimmtíu fermetra aðstöðu. Það er örlítill munur,“ bætir hann við.

Takmark Sigurjóns og Helga er að vinna við mjaðargerðina í fullu starfi en eins og stendur eru þeir báðir í fullu starfi annars staðar. Það er því nóg að gera hjá kumpánunum.

„Það eru langir dagar og langar vikur,“ segir Sigurjón og bætir við að margir klukkutímar fari í hverja flösku af miði. „Þetta er rosaleg vinna. Við erum svo litlir og framleiðslan á svo smáum skala. Við gerum allt í höndunum; við maukum berin og setjum á flöskurnar í höndunum.“

Mjöður og bjór eiga ekkert skylt

Eins og er brugga félagarnir tvo miði; annars vegar Rjóð sem er mjöður með súrum kirsuberjum og hins vegar Bláma sem er mjöður með bláberjum. Í desember kemur svo nýjung frá Öldur – mjöðurinn Neisti sem er gerður úr karamelliseruðu hunangi þar sem hunang er soðið niður í klukkutíma.

„Þessir þrír miðir eru það sem er kallað session miðir og eru lægri í áfengisprósentu en hefðbundinn mjöður. Þá eru þeir einnig bornir fram kolsýrðir,“ segir Sigurjón. Hann vill jafnframt taka það fram að mjöður á ekkert skylt við bjór, eins og margir halda.

„Það er búinn að vera misskilningur í gangi með þetta orð mjöður. Fólk heldur að þetta sé annað orð yfir bjór, en mjöður og bjór er eins ólíkt og bjór og vín. Þessir tveir drykkir eiga ekkert skylt. Munurinn er sá að sykurinn sem er gerjaður í áfengi kemur úr möltuðu byggi í bjór. Bjór notast einnig við hummla. Í mjöð kemur sykurinn úr hunangi. Þannig að þetta er náttúrulega glútenfrír drykkur,“ segir Sigurjón og bætir við að hann standist ekki mátið að leiðrétta fólk þegar það ruglar bjór og miði saman.

Miðirnir tveir.

„Já, ég hef tekið að mér að vera sjálfskipuð lögga á Facebook,“ segir hann og hlær.

„Börnin halda mér heima“

En af hverju ákváðu þeir Sigurjón og Helgi að fara út í bruggbransann, sem er ansi harður á Íslandi um þessar mundir?

„Ég kem úr kvikmyndageiranum og fæ voðalega lítið að gera hérna heima þannig að ég hef verið að vinna mikið erlendis síðastliðin ár. Ég á börn og börnin halda mér heima. Þá þarf maður að finna sér eitthvað að gera við hæfi. Við Helgi vorum búnir að ræða okkar á milli í svolítinn tíma að vinna að einhverju bruggtengdu saman. Við vinnum vel saman og höfum svipaðan smekk. Svo var það í fyrra á Menningarnótt að við fórum í kútapartí sem Fágun, félag áhugafólks um gerjun, stendur fyrir. Í partíið koma heimabruggarar með heimabrugg og leyfa gestum og gangandi að smakka. Við fórum með kirsuberjamjöð og einn eiganda Nostru og yfirkokkurinn smökkuðu mjöðinn og fannst hann mjög góður. Þeir spurðu hvort væri hægt að kaupa þetta einhvers staðar og við svöruðum að bragði: Ekki enn þá. Þá fór allt í gang að þróa vöruna áfram, fá öll tilskilin leyfi og þess háttar,“ segir Sigurjón.

„Þetta var sparkið í rassinn sem við þurftum að láta þetta gerast.“

Takmarkinu fagnað með tattúi

Eins og áður segir safna Sigurjón og Helgi nú fyrir því að stækka mjaðargerðina. Þeir sem styrkja söfnunina geta til dæmis fengið mjöð gefins fyrir greiðvikið, en það er meira sem liggur undir.

Tattúið verður að veruleika.

„Við erum vongóðir að þetta hafist. Það er eins gott því Helgi ætlar að fá sér tattú ef við náum 100 prósent. Ég er nú þegar búinn að fá mér tattú þar sem það var ákveðið að ég fengi mér tattú ef við næðum 50 prósentum,“ segir Sigurjón en þegar þetta er skrifað eru þeir félagar búnir að safna 69 prósent af söfnunartakmarkinu. „Þannig að ég er með lógó Öldur á vinstri hendinni. Ég fékk kærustuna mína, Helgu Thoroddsen á Valkyrie Tattoo Studio, til að setja þetta á mig þar sem hún er að læra húðflúrgerð.“

Sama hvað gerist á síðustu dögum söfnunarinnar ætla félagarnir að halda ótrauðir áfram.

„Við höfum tröllatrú á okkar vöru. Fólk sem hefur smakkað finnst þetta gott og margir aðrir hafa trú á þessu líka. Við tökum þrautseigjuna á þetta og höldum þessu til streitu. Það er bara allt eða ekkert.“

Ástríðubruggarinn við dæluna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
29.08.2024

Simmi Vill mætir með nýjung á Kjúklingafestival ársins

Simmi Vill mætir með nýjung á Kjúklingafestival ársins
Matur
03.08.2024

Hvað kostar 12″ pizzan víðs vegar um landið?

Hvað kostar 12″ pizzan víðs vegar um landið?
Matur
22.06.2024

Þetta eru augljós merki þess að veitingastaður er skítugur og þú ættir EKKI að borða þar

Þetta eru augljós merki þess að veitingastaður er skítugur og þú ættir EKKI að borða þar
Matur
18.06.2024

Bjóða upp á hamborgara frá ýmsum heimshornum

Bjóða upp á hamborgara frá ýmsum heimshornum