Egill Helgason man vel þá tíð að skólahaldi var aflýst vegna veðurs. Segir hann í pistli á Eyjunni að slíkt hafi nokkrum sinnum átt sér stað í hans æsku en man ekki til þess að það hafi gerst þegar sonur hans var í grunnskóla. „Einhver besti dagur æsku minnar var þegar ég var enn í gamla Öldugötuskólanum. Það var blindbylur þegar fólkið vaknaði og tilkynnt að ekki yrði kennt í skólum. En birti til þegar leið á morguninn og fljótt var komið dýrlegt vetrarveður með stærstu sköflum sem hafa sést fyrr og síðar á Landakotstúni. Við gátum eytt öllum deginum að grafa sjóhús og snjógöng í þeim. Ég er viss um að fleiri en ég muna þennan dag.
Sonur minn hefur oft látið sig dreyma um lokun skóla vegna veðurs. En eins og áður segir. – ég man varla til að það hafi gerst í skólagöngu hans.“