Jose Mourinho, stjóri Manchester United, á að búast við því að fá sparkið frá félaginu á næstu vikum.
Þetta segir Paul Ince, fyrrum leikmaður United en hann segir að Mourinho sé búinn með afsakanirnar og getur lítið sagt lengur.
Mourinho hefur fengið þrjú ár til að sanna sig á Old Trafford og vill Ince meina að tími hans sé að renna út.
,,Hann vill spila varnarbolta og vinna þykkan 1-0 sigur en hann veit að leikmenn og stuðningsmenn sætta sig ekki við það. Það er rétt hjá þeim,“ sagði Ince.
,,Við erum á þriðja tímabili Mourinho. Hann er búinn með afsakanirnar. Þú hefur eytt mikið af peningum.“
,,Ef ég væri að þjálfa lið og hefði fengið þrjú ár og það væri augljóst að hlutirnir væru ekki að ganga upp þá myndi ég búast við að fá sparkið.“