fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Danir vilja selja ræstingarisann ISS Ísland

Með á fjórða milljarð í veltu á ári – Kvika banki ráðgjafi í söluferlinu

Ritstjórn DV
Föstudaginn 26. ágúst 2016 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Félagið ISS Ísland, langsamlega stærsta fyrirtækið á ræstingarmarkaði hér á landi með á fjórða milljarð króna í veltu á ári, var sett í söluferli fyrr í þessum mánuði. Það er fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka sem hefur verið ráðin til að hafa umsjón með sölumeðferð ISS á Íslandi, samkvæmt heimildum DV. Allt hlutafé félagsins er í eigu alþjóðlegu fyrirtækjasamsteypunnar ISS A/S sem er með höfuðstöðvar í Danmörku.

Starfsemi ISS á Íslandi lýtur að ræstingum, mötuneytisþjónustu og annarri fasteignaumsýslu en félagið hefur verið í eigu ISS A/S allt frá síðustu aldamótum þegar ISS-Danmark keypti Ræstingar ehf., dótturfyrirtæki Securitas. Hagnaður félagsins á árinu 2014, en fyrirtækið hefur ekki skilað inn reikningi fyrir síðasta rekstrarár, nam tæplega 162 milljónum króna eftir skatta. Tekjur ISS á Íslandi hafa aukist um liðlega einn milljarð á síðustu fimm árum og námu tæplega 3,2 milljörðum á árinu 2014 en samtals starfa um 720 manns hjá fyrirtækinu.

Guðmundur Guðmundsson, forstjóri ISS á Íslandi, vildi í samtali við DV ekkert tjá sig um söluferlið þegar eftir því var leitað. Alþjóðafyrirtækið ISS A/S, móðurfélag ISS Ísland ehf., er með starfsemi í 53 löndum og er einn stærsti einkarekni atvinnurekandi í heimi með yfir 500 þúsund starfsmenn.

ISS Ísland hefur talsvert sterka stöðu á þessum markaði gagnvart sínum helstu keppinautum. Þannig kom meðal annars fram í úttekt Viðskiptablaðsins í september í fyrra að tekjur félagsins hefðu numið um 66% af heildarveltu þriggja stærstu ræstingarfyrirtækjanna. Þá er arðsemi rekstrar ISS á Íslandi mun meiri en í samanburði við sína helstu samkeppnisaðila – Hreint og Sólar – en hlutfall hagnaðar af tekjum fyrirtækisins var rúmlega 5% á árinu 2014 á meðan EBITDA-framlegð var um 7,5%. Mörg af stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins kaupa ræstingarþjónustu sína af ISS á Íslandi.

Fyrirtækið skilaði liðlega 140 milljóna króna EBITDA-hagnaði – afkoma fyrir fjármagnsliði og afskriftir – á árinu 2014 og jókst hann um ríflega 30 milljónir frá fyrra ári. Eigið fé ISS Ísland var tæplega 1.680 milljónir króna í lok árs 2014 en félagið hefur ekki stofnað til neinna skuldbindinga við lánastofnanir. Launakostnaður var um 2,4 milljarðar króna sem þýðir að um 75% af öllum rekstrartekjum fyrirtækisins fer í að standa straum af launum og launatengdum gjöldum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí