,,Mér líður vel, það var ljúft að vera í hópnum um síðustu helgi,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson framherji Nantes við fréttamenn í Frakklandi í dag.
Framherjinn knái var í fyrsta sinn í hóp hjá aðalliði Nantes síðan í ágúst árið 2016. Síðan þá hefur framherjinn knái glímt við meiðsli.
Nú 21 mánuði síðar er Kolbeinn að ná fullri heilsu og vonast hann til að vera með í HM hópi Íslands, hópurinn verður kynntur á morgun. Kolbeinn lék síðast með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í Frakklandi fyrir tæpum tveimur árum.
Hann fór með landsliðinu til Bandaríkjanna í mars en vegna meiðsla gat hann ekki tekið þátt í leikjum liðsins.
,,Þetta eina og hálfa ár hefur verið mjög erfitt fyrir mig, þetta tók tíma og ég varð að sýna þolinmæði. Núna gleður það mig að vera mættur aftur.“
Meiðsli Kolbeins hafa verið í hné en meiðslin komu upp þegar hann var á láni hjá Galatasaray. ,,Ég hef hitt marga lækna frá því að ég fór frá Tyrklandi, í Barceona, Katar og á Íslandi.“
,,Ég íhugaði alveg að hætta í fótbolta eftir samtal við lækna. Ég fann að lokum lækni í Svíþjóð sem skar mig upp aftur og gat lagað það sem var að hrjá mig. Nú get ég spilað fótbolta á nýjan leik.“
Kolbeinn á tvö ár eftir af samningi sínum við Nantes en veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. ,, Framtíð mín er í höndum Nantes, ég held að ég geti hjálpað og nýtt reynslu mína. Þetta er ný byrjun fyrir mig, í fótboltanum fer maður í gegnum góða og slæma tíma. Á síðustu 18 mánuðum hef ég lært mikið, að vera rólegur, andlega sterkur og að meta hlutina á betri hátt.“
Um að vera í landsliðshópi Íslands á morgun hafði framherjinn þetta að segja. ,,Ég er 100 prósent og vonast til að vera í hópnum.“