fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Sauð upp úr í réttarsal vegna Útvarps Sögu og Arnþrúði heitt í hamsi: „Við skulum reyna að róa okkur!“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 7. maí 2018 12:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja að það hafi soðið upp úr í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þegar aðalmeðferð hófst í  máli Guðfinnu Karlsdóttur gegn Arnþrúði Karlsdóttur, útvarpsstjóra Útvarps Sögu. Pétur Gunnlaugsson varði Arnþrúði svo báðir helstu stjórnendur stöðvarinnar voru á staðnum. Málið snýst um hvort fé sem Guðfinna lagði inn á persónulegan bankareikning Arnþrúðar hafi talist styrkur eða lán. Síðar voru peningarnir millifærðir inn á  reikning útvarpsstöðvarinnar. Daði Kristjánsson dæmdi málið.

Réttarhald var nokkuð skrautlegt og þurfti dómari til að mynda að krefjast þess að Arnþrúður róaði sig. Útvarpsstjóri spurði sjálf í hléi hvort einhver gæti gætt fjármuna. Í réttarsal væri maður sem hefði verið með morðhótanir og benti á einn mann.

Hélt þær væri vinkonur

Guðfinna bar fyrst vitni í morgun og bað Eyvindur Sólnes lögmaður hennar hana um að lýsa atburðum. „Ég kynntist Arnþrúði í september árið 2014 og það varð vinskapur á milli okkar. Síðan var ég beðin um að hjálpa stöðinni sem ég vissi að væri í erfiðleikum. Ég átti tvær milljónir í lausafé sem var arfur frá mömmu sem ég fékk í tveimur greiðslum. Ég vildi lána stöðinni peninginn tímabundið þangað til að framkvæmdir á húsnæðinu mínu hæfust. Það þurfti að gera ýmislegt fyrir húsið, laga lagnir, þak, rafmagn og fleira,” sagði Guðfinna.

Árið 2016 voru tvær milljónir lagðar inn á reikning Arnþrúðar í einni færslu. „Ég fékk reikningsnúmer frá Arnþrúði og lagði inn. Arnþrúður sagðist vera illa stödd og lasin á þessum tíma. Arnþrúður vissi að ég gat ekki gefið henni þessa fjármuni,” sagði Guðfinna.

Síðar var hálf milljón lögð inn á sama reikning. „Það var ekkert talað um vexti eða gjalddaga en hún vissi að ég þyrfti peningana aftur fyrir verktakana.” Guðfinna veikist vegna myglu og lagðist inn á spítala. Þá var hún einnig þunglynd. Verktakinn kom fyrr en áætlað var og Guðfinna þurfti á fjármununum að halda. „Ég hafði áður styrkt stöðina með smáum upphæðum og svo eina háa, 150 þúsund krónur árið 2015,“ sagði Guðfinna.

Pétur yfirheyrir

Svo var komið að Pétri Gunnlaugssyni að spyrja Guðfinnu og hann byrjaði á því að sýna henni kvittanir.

Þú fórst niður í banka?

„Já, ég gerði það“

Af hverju léstu ekki skrá þetta sem lán?

„Af því að ég treysti henni. Ég hélt að hún væri vinkona mín og myndi ekki svíkja þetta svona“

Í júlí 2016, 600 þúsund teknar úr banka. 300 greiddar inn á reikninginn. 300 greiddar með gíróseðli til verktaka á húsinu.

„Það getur verið rétt. Ég er ekkert að eltast við þessar 300 þúsund krónur,” sagði Guðfinna.

Hittir þú starfsfólk Útvarps Sögu?

„Ég kynntist engum nema ykkur. Ég kom nokkrum sinnum þangað“

Taldir þú þetta fram til skatts?

„Já, ég veit ekki betur.“

Skattskýrsla er ekki lögð fram. Taldir þú fram greiðslukræfa vexti í skattskýrslu?

„Já. Ég tel sjálf fram og strákurinn minn er með mér í þessu.“

Eyvindur greip inn í og viðurkenndi að skattskýrsla lægi ekki fyrir dóminum og því hallaði á umbjóðanda sinn að því leyti.

Talið barst að Thelmu Christel Kristjánsdóttur, tengdadóttur Guðfinnu. Thelma og sonur Guðfinnu sáu um málið á meðan hún var þunglynd. Guðfinna frétti frá þeim að Arnþrúður ætlaði ekki að borga.

Var samið um vexti?

„Ekki skriflega. Það er sanngjarnt í ljósi hversu lengi þetta hefur verið.“

 

„Þú manst þetta, Guðfinna!“

Næsta vitni var Arnþrúður Karlsdóttir, eigandi Útvarps Sögu. Pétur spurði hana:

Hvernig þekkir þú stefnanda?

„Afskaplega lítið. Ég hef aldrei heyrt um þennan fund í apríl 2014. Hún kom í húsakynni Útvarps sögu í apríl árið 2016 en hún var búin að óska eftir viðtali við mig fyrr. Stöðin var að auglýsa eftir föstum styrkjendum eins og hún hefur gert í mörg ár og Guðfinna var einfaldlega ein af þeim. Hún lagði mikla áherslu á að tala við mig persónulega og fékk tíma fyrir fund. Hún minntist ekkert um fyrri styrki þá en sagðist vita hver ég væri og vildi vingast við mig persónulega. Þá spurði ég hvort hún ætlað að gerast fastur styrtaraðili en hún sagðist vilja hafa þetta eftir sínu höfði. Hún sagðist ekki nota heimabanka og vildi ekki þannig viðskipti. Ég vissi ekki hversu mikið hún ætlaði að styrkja og það var engin upphæð rædd, þetta veit Guðfinna sem situr hér. Síðan sagði hún mér að hún vildi ekki leggja inn í Arionbanka af einhverjum ástæðum. Útvarp saga er aðeins með reikning þar og hún yrði að fara þangað til að styrkja. Ég sagði henni hins vegar að ég væri með gamlan persónulegan reikning í Landsbankanum. Síðan kvöddumst við á skrifstofunni minni og hún var komin í útidyrnar þegar hún sneri sner við og kallaði: Gefðu mér upp persónulega reikninginn þinn til öryggis. Þú manst þetta, Guðfinna!“

„Nei” svaraði Guðfinna Arnþrúði þá og augljóst var að það var tekið að hitna í kolunum.

Dómari sló með hamri í borðið og bað fólk að róa sig. Arnþrúður hélt áfram:

„Ég vissi ekkert hvað hún ætlaði að leggja inn eða hvar. Sex vikum síðar kom hún aftur inn á skrifstofuna og sagðist hafa verið í bankanum að leggja inn 500 þúsund og hafði lagt inn upphæð áður. En ég sá engan styrk á reikningnum í Arionbanka. Þá sagðist hún hafa lagt inn á Landsbankann. Ég spurði hana hvaða peningar þetta væru og hvort hún ætti börn á framfæri. Þá sagðist hún hafa fengið móðurarf, væri ein og ætti tvo uppkomna syni. Hún sagðist hafa hugsað þetta lengi og vildi styrkja útvarpsstöðina og fullvissaði mig um það að hún hefði tekjur og ekki fyrir neinum að sjá, til dæmis af ljósmyndabókum sem gefnar væru út um aldamótin. Hún sagði jafnframt að hennar nafn mætti hvergi koma fram í bókhaldi Útvarps sögu. Hún var mjög trúverðug og yndisleg manneskja. 6. júní 2016 kom hún inn á skrifstofuna og sagðist hafa lagt inn en ég vissi ekki hversu háa upphæð.“

„Við skulum reyna að róa okkur!“

Arnþrúður spurði í hléi hvort einhver gæti gætt fjármuna. Í salnum væri maður sem hefði verið með ýmsar hótanir í garð hennar í gegnum tíðina, þar á meðal morðhótanir.

Síðan hélt aðalmeðferð áfram og vitnisburður Arnþrúður. Hún sagði að í sex vikur hafi peningarnir legið óhreyfðir inn á persónulega reikningnum og hún ekki vitað af þeim. Um sumarið 2016 hafi Guðfinna komið oft í húsnæði Útvarps sögu, til að þiggja kaffi og mat, þar á meðal fisk. Þá hafi Guðfinna borið upp mál sem væri fréttamál fyrir stöðina. Dómsmál sem Guðfinna hafði tapað í fasteignaviðskiptum og vildi að Útvarp saga fjallaði um. Arnþrúður segir

„Guðfinna sagði: Ég vil að þú takir hressilega á honum. Taktu hann í gegn. Ég sagist ætla að skoða þetta en svo sá ég að þetta var ekkert fréttamál fyrir stöðina. Guðfinna sagði að Fréttablaðið og DV vildu ekki fjalla um málið en þá benti ég henni á að tala við Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur lögmann sem hefur sérhæft sig í fasteignaviðskiptum.“

Arnþrúður hélt áfram:

„Í nóvember árið 2016 sagði Guðfinna mér að það læki allt heima hjá sér. Ég spurði hvort það væri enginn í fjölskyldunni sem gæti hjálpað. Nei, sagði hún og þá sá ég að það væru samskiptaörðugleikar á milli Guðfinnu og sonar hennar. Ég benti henni á húseigendafélagið og aðstoðaði hana við að hafa samband við þá. Síðan varð ég ekkert var við Guðfinnu í margar vikur og bjóst við að húseigendafélagið hafi getað hjálpað henni. Um mánaðarmótin febrúar/mars árið 2017 var ég beðin að hringja í Guðfinnu. Þá spurði hún um JÁ iðnaðarmenn, sem væru auglýsendur á Útvarpi sögu og átti hún þá í einhverjum erfiðleikum með þá. Hún sagði ekkert um að ég ætti að greiða neitt til baka heldur sagðist hún hafa lagt 300 eða 500 þúsund inn á stöðina til viðbótar. En ég skynjaði þá að það var ósætti milli Guðfinnu og sonar hennar og tengdadóttur. Þau væru að reyna að taka yfir fjármálin hjá Guðfinnu.“

Þann 10. apríl árið 2017 fékk Arnþrúður símtal frá Thelmu Christel.

„Thelma, sem ég þekkti ekkert, sagði mér að Guðfinna væri inn á geðdeild og Thelma sjái um allt fyrir hana.“

Arnþrúður sagði að þetta símtal hafi komið henni mjög í opna skjöldu.

„Thelma sagði mér að Guðfinna hefði verið að leggja inn „stórfé inn á þessa viðbjóðslegu útvarpsstöð” og að hún væri að hugleiða að láta svipta Guðfinnu.“

Dómari greip þá inn í og spurði Arnþrúði, sem var orðið mjög heitt í hamsi, hvort þetta væri ekki nóg.

„Nei!” svaraði Arnþúður. „Því hér eru bornar á mér alvarlegar sakir! Þessi kona sagðist ætla í fjölmiðla og rústa og misþyrma nafni mínu. Ég upphlifði þetta sem alvarlega hótun og fjárkúgun.“

Arnþrúður er við það að æpa á þessum tímapunkti.

„Hver er raunverulega að stefna mér í þessu máli?!?!?“

Dómarinn svaraði: „Við skulum reyna að róa okkur!“

Við það lauk vitnisburði Arnþrúðar og þrjú önnur vitni komu fyrir dóminn. Eitt vitnanna var Pétur sjálfur og sagði dómari það óvanalegt að lögmaður sjálfur bæri vitni. Dómari spurði hann því sjálfur hvort Pétur hafi vitað að Guðfinna væri styrktaraðili. Hann játti því en vissi ekkert um upphæðir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum
Enn einn Snapchat-perrinn
Fréttir
Í gær

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum
Fréttir
Í gær

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Í gær

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum