fbpx
Fimmtudagur 13.nóvember 2025
Eyjan

„Kerfi sem þarf að kollvarpa“

Egill Helgason
Sunnudaginn 17. janúar 2016 12:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er eitt einkenni á þrasinu á internetinu að menn fara sjaldnast í stóru málin. Það er þægilegra að þrasa um eitthvað smátt sem útheimtir enga þekkingu – og æsingurinn verður líka meiri í kringum tittlingaskítinn. Og netmiðlarnir fá fleiri smelli.

Athygli vekur að sama og ekkert er fjallað um búvörusamning en gerð hans stendur nú yfir. Þetta er stórmál. Þarna eru gríðarleg fjárútlát og þarna er kerfi sem hefur mikil áhrif á það hvernig framboði á matvöru er háttað. Búvörusamningurinn sem nú er í bígerð mun standa í 10 ár, hvorki meira né minna.

Hættan er sú að einungis verði lappað upp á kerfi sem hefur þann eiginleika að tryggja hag milliliða, skilar bændum í raun litlu, er dýrt og óhagkvæmt, hemilli á framfarir og er langt í frá að skila okkur eins góðri vöru og unnt er.

Þórunn Pétursdóttir landvistfræðingur skrifar um búvörusamninginn í vefritið Kjarnann. Þórunn skoðar einkum málefni sauðfjárræktarinnar. Hún bendir á að neysla kindakjöts á Íslandi hafi stöðugt farið minnkandi, þrátt fyrir mikla fjölgun ferðamanna.

Árið 2014 vorum við orðin um 326 þúsund talsins og um ein milljón ferðamanna sóttu okkur heim. Jafnmargt fé var í landinu og árið 1992, eða um 487 þúsund gripir sem gáfu af sér 10.100 tonn af kjöti. Hinsvegar hafði  innanlandssalan dregist meira saman og var orðin sambærileg við árið 1975, eða aðeins um 65%. Svo, þrátt fyrir þessa gríðarlegu fjölgun ferðamanna síðan árið 2002, þá borðuðum við enn minna kindakjöt en áður á ársvísu, aðeins um 20 kg á íbúa. Árleg heildarkjötneysla á mann er aftur á móti 74,7 kg. Maður hlýtur að spyrja: hvað veldur því að sala á kindakjöti hefur ekki aukist í hlutfallslegu magni við fjölgun ferðamanna síðasta áratuginn eða svo? Og – af hverju vill íslenski neytandinn ekki meira?

Framboð af kindakjöti er meira en eftirspurn, segir Þórunn. Afurðaverð til bænda er lágt en framleiðslustyrkir háir.

Ýmislegt hefur verið gert til að skoða stöðu sauðfjárræktarinnar, við teljum almennt Íslendingar að kindakjötið okkar sé framúrskarandi gott, ef ekki hið besta í heimi. En við hegðum okkur ekki í samræmi við það.Samkvæmt skýrslu sem Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri gerði nýlega fyrir LS þá er mest allt lambakjöt sem flutt er út selt án upprunamerkingar. Hvernig má það vera? Ef við ætlum raunverulega að skapa afurðinni sérstöðu sem íslenskrar “hálfgildis villibráðar” þá þurfa kaupendur að minnsta kosti að vita upprunaland vörunnar?

Þórunn segist vilja sauðfjárræktinni vel, tækifærin liggi hins vegar ekki í því að halda áfram á sömu braut og síðustu áratugi:

Ég vil sjá sauðfjárrækt halda áfram að vera til og dafna vel. Að ær og lömb séu á úthagabeit sumarlangt og að afurðirnar sem greinin framleiðir flokkist sem hágæðavara, framleidd á sjálfbæran hátt án allra aukaefna. Að grunn afurðaverð hækki umtalsvert og svæðisbundin fullvinnsla afurða vaxi og styrkist enn frekar. Að við hættum að leggja gæði og verð lamba- svína og kjúklingakjöts að jöfnu. Ég trúi að tækifærin séu fjöldamörg en þau liggja ekki í að halda áfram á sömu braut og greinin hefur fylgt síðustu 50 árin eða svo.

Tækifærin séu mörg, en þau felist ekki í að læsa bændur inni í gamaldags kerfi framleiðslustyrkja, þeim þurfi að breyta í styrki til nýsköpunar, búsetu- og byggðastyrki:

Það þarf að kollvarpa núverandi kerfi og aflæsa öllum gildrum sem eru innbyggðar í það. Hugsa heildstætt, tengja framtíðarsýn greinarinnar mun sterkar við byggðamál almennt og opna á ný atvinnutækifæri fyrir þá sem kjósa að byggja sveitir landsins. Af hverju erum við til dæmis enn að greiða framleiðslustyrki út á hvert kíló kindakjöts eða á grip? Af hverju greiðir ríkið ekki bændum fyrir nýsköpun í staðinn, til að mynda í formi búsetu- eða byggðastyrkja og hvetur þá þannig til að hugsa útfyrir kassann? Þeir sem vilja halda sauðfé geta sem best gert það áfram samhliða öðrum verkefnum en þeir sem vilja nýta aðrar auðlindir en beitiland fengju aukin tækifæri til þess.  Því ætti það ekki að ganga?

 

folk_fe_kjot_ThP.width-800

Línurit um neyslu kindakjöts sem Þórunn Pétursdóttir  birtir með grein sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Dagur B. Eggertsson: Þurfum að bregðast við gagnrýni Mannréttindadómstólsins

Dagur B. Eggertsson: Þurfum að bregðast við gagnrýni Mannréttindadómstólsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur fækkar og okkur fjölgar

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur fækkar og okkur fjölgar