
Þegar maður ferðast í Evrópu og Bandaríkjunum sér maður víða hvað hafa orðið miklar framfarir í matvöruverslun, ekki aðeins hvað varðar framboð, heldur líka hvað varðar gæði, ferskleika og framsetningu vörunnar. Og kröfur neytenda hafa aukist meðfram þessu. Maður kemur inn í matvörubúðir erlendis sem virka nánast á mann eins og ævintýraheimur.
Einhvern veginn er eins og Ísland hafi farið algjörlega á mis við þessa þróun. Manni finnst frekar eins og matvöruversluninni hafi hnignað hér síðustu árin – það hafa sprottið upp nokkrar sérverslanir sem eru til sóma – megi þær dafna! – en stóru matvörubúðirnar verða æ dapurlegri, sérstaklega ef borið er saman við það sem er að gerast í matvöruverslun erlendis.
Ávextir og grænmeti lélegt, rotið og skemmt, allt kjöt plastað í bak og fyrir – hvergi að sjá ferskan fisk. Það er engin áhersla á lókal matvöru – eða upprunamerkingar. Í búðunum er ekki að finna fólk sem hefur þekkingu á því sem er verið að selja.
Stundum skýtur upp í hugann orðinu „sovét“ – það er spurning hvort sé í rauninni einhver samkeppni á matvörumarkaðnum á Íslandi?
Vinur minn, sem er mjög fróður um matvöru, sagði mér um daginn að hann hefði farið með bandarískum sérfræðingi í matvöruverslun í íslenskar búðir nýskeð. Bandaríkjamaðurinn hefði komið hér fyrir tólf árum síðan, en hefði sagt að lokinni þessari heimsókn:
„Veistu, það hefur ekki átt sér stað nein þróun í matvöruverslun á Íslandi“.
Í dag var tilkynnt að Hagar, verslanakeðjan sem á meðal annars Bónus og Hagkaup, hafi skilað hagnaði upp á 2,8 milljarða á fyrstu þremur fjórðungum síðasta árs. Þessi keðja malar gull. En hinir gráðugu vilja meira, nú er líka kunngjört að Hagar vilji hefja heildsölu á áfengi – væntanlega með það í huga að selja áfengi í smásölu ef frumvarp sem leyfir slíkt verður samþykkt á Alþingi.
Ef marka má frammistöðuna í matvöruverslun geta menn tæplega gert sér vonir um mikið, fjölbreytt eða gott úrval af vínum.