fbpx
Fimmtudagur 13.nóvember 2025
Eyjan

Nokkrir punktar um Netflix

Egill Helgason
Fimmtudaginn 7. janúar 2016 17:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er mikið rætt um innkomu Netflix á íslenskan sjónvarpsmarkað. Sumir segja jafnvel að þetta sé mikið fagnaðarefni.

Jón Gnarr, dagskrárstjóri hjá 365, óttast hins vegar að Netflix muni kippa fótunum undan íslenskri dagskrárgerð. Og vissulega sýnist manni að 365 sé vandi á höndum. Á móti heyrir maður það viðkvæði að íslenskar sjónvarpsstöðvar geti þá hætt að sýna allt þetta erlenda efni – einbeitt sér að íslensku efni í staðinn.

En staðreyndin er sú að íslenska efnið er almennt miklu dýrara en hið erlenda. Sjónvarpsstöð sem vill kosta litlu til sýnir einungis erlent efni – eða þá dagskrá sem byggir á 2-3 einstaklingum sem sitja og ræða einhver mál í litlu stúdíói.

Kannski er þetta hvorki fagnaðarefni né sérstakt tilefni til að vera sorgmæddur. Hún er reyndar frekar leiðinleg sú nauðhyggja að allar tæknibreytingar hljóti að vera til bóta í sjálfu sér. Svo þarf ekki endilega að vera. Netflix greiðir væntanlega ekki neina skatta af starfsemi sinni á Íslandi og margt í starfseminni stangast á við þau markmið sem við höfum sett okkur varðandi íslenska tungu.

Við erum að horfa upp á innkomu bandarísks stórfyrirtækis á íslenskan fjölmiðlamarkað. Tilfinning þess fyrir hinum menningarlegu aðstæðum á Íslandi – í landi þar sem býr fámenn þjóð sem reynir eftir megni að nota sitt eigið tungumál – er náttúrlega afar takmörkuð.

Efnið á Netflix verður í fæstum tilvikum með íslenskum texta – en á sjónvarpsstöðvum sem senda út hér á Íslandi hvílir sú lagaskylda að texta erlent efni. Við höfum talið það vera sjálfsagðan menningarlegan metnað; kannski er framtíðin að losa íslenskar sjónvarpsstöðvar undan þessari kvöð – svona fyrst að stór hluti þjóðarinnar mun hvort sem er horfa á efnið ótextað?

Staðreyndin er samt sú að úrval efnis á Netflix er afar takmarkað, líka á hinu bandaríska Netflix þar sem framboðið er og verður mun meira en í því íslenska. Nýjar eða nýlegar kvikmyndir fær maður ekki á Netflix nema í undantekningartilvikum – sumir dreifingaraðilar hafa reyndar verið að taka myndir sínar af Netflix í seinni tíð. Oft getur maður talist góður ef maður finnur eina eða tvær kvikmyndir með frægum leikara eða eftir frægan leikstjóra á Netflix.

Ef taka má flokkinn klassískar myndir er mun betra úrval á Hulu sem er með samning við hina frábæru Criterion Collection, en aðgengið er auðvitað langmest í gegnum iTunes. Þar byggist kerfið hins vegar á því að maður borgar fyrir hverja mynd eða þátt – ekki mánaðargjald eins og á Netflix og Hulu.

iTunes fær kvikmyndir mjög fljótt inn á vefinn til sín, Netflix stenst engan samanburð við þetta. En efnið getur verið dýrt þegar það kemur fyrst inn á iTunes – allt upp í 20 dollarar á mynd. Það lækkar hins vegar og yfirleitt endar leiguverðið á bilinu 1-4 dollarar.

 

url

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Mikil mistök að sameinast Kjarnanum

Reynir Traustason: Mikil mistök að sameinast Kjarnanum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Guðrún vill minnka allt

Orðið á götunni: Guðrún vill minnka allt