
Bókaútgefandinn glöggi, Kristján B. Jónasson, bendir á athyglisverðan punkt á Facebook – nefnilega að ekki fleiri en 160 manns geta boðið sig fram til forseta.
Kristján finnur þetta út með því að rýna í tilskilinn fjölda meðmælenda sem hver frambjóðandi þarf að hafa:
Samkvæmt mínum útreikningum geta ekki fleiri en 160 boðið sig fram til forseta, miðað við að 240.000 manns séu á kjörskrá og að 1500 meðmælendur þurfi fyrir hvern frambjóðanda. Ég geri því fastlega skóna að ekki sé mögulegt að mæla með fleirum en einum frambjóðanda.
Lysthafendur verða greinilega að passa sig á að brenna ekki inni með framboð sitt. Það gæti farið svo að allir meðmælendur séu uppurnir.