Flestir eru sammála um að nú sé komið að ögurstund í Icesave málinu. Það sé ekki eftir neinu að bíða lengur. Ögmundur Jónasson sagði fyrir jól að málið væri útrætt.
Það er ekki hægt að eyða meiri tíma í þetta í sölum Alþingis.
Ef menn telja að það sé nauðsynlegt verður að færa Svavar Gestsson á fund þingmanna.
En tíminn er á þrotum. Réttast væri að loka þingheim inni, hafa fundi yfir hátíðarnar – ef ekki vill betur til.
Maturinn í mötuneyti þingsins er víst svo góður að þingmenn þurfa ekki að þola sult.
Niðurstaða verður að fást, hvort sem málið verður samþykkt eður ei.
Nú virðist þetta hanga á atkvæðum Ásmundar Einars Daðasonar, formanns Heimssýnar, og Þráins Bertelssonar – þeirra atkvæði vega þungt í dag. Þeir geta bjargað ríkisstjórninni, eða fellt hana.
Og þá kemur til kasta Ólafs Ragnars Grímssonar. Ég hef áður sett fram þá skoðun að miðað við fyrri framgöngu hans í embætti og yfirlýsingar hans sé honum varla stætt á öðru en að neita að skrifa undir lögin.
Þá yrði líf stjórnarinnar aftur í tvísýnu. Það er hættulegt lífið í pólitíkinni þessa dagana.