Við erum að tala um byssueign íslensku lögreglunnar. Þingmaður segir að við lifum ekki í Disneylandi. Það er sagt að ofbeldi sé að aukast – og við tökum því eins og sjálfsögðum hlut, eins og ofbeldi hljóti alltaf að aukast, það sé bara partur af þróun. Heimurinn sé að verða harðari.
En þetta stenst ekki skoðun. Flest bendir til þess að ofbeldi hafi farið minnkandi í vestrænum samfélögum. Tíðni ofbeldisglæpa hefur lækkað bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Borgir eru miklu öruggari en þær voru áður. Frægt dæmi er New York. Fólk gengur óhult þar um á öllum tímum sólarhrings. Hér er nýleg grein í Guardian þar sem segir frá fækkun glæpa í Bretlandi og á Vesturlöndum. Þetta hefur verið þróunin síðustu tvo áratugi.
Tímaritið Economist fjallaði um þetta í fyrra. Það sagði að þessi lækkun glæpatíðni hefði verið þvert á það sem margir héldu. En þarna komi ýmislegt til. Meðalaldur í vestrænum samfélögum hafi hækkað, flestir glæpir eru framdir af ungum karlmönnum. Öryggisgæsla sé betri. Faraldrar heróíns og krakks hafi gengið yfir og séu ekki eins skæðir og áður var.
Í Bandaríkjunum er geysilegur fjöldi ungra karlmanna í fangelsi. Þetta er þó tæplega skýringin á lækkandi glæpatíðini, því glæpum fækkar líka í Evrópulöndum þar sem miklu færri eru í fangelsum.
Economist mælir í greininni með fyrirbyggjandi lögreglustarfsemi – þar getur öflun gagna og vinnsla þeirra gengt mikilvægu hlutverki. Eins segir blaðið að komin sé til sögunnar önnur tegund af glæpum sem þurfi að fylgjast betur með og sem fari vaxandi. Þegar ofbeldisglæpum og þjófnuðum fækki, fái lögregla kannski ráðrúm til þess.
Þar nefnir blaðið fjármálaglæpi eins og kreditkortasvindl og skattsvik. Nútíminn kalli semsagt á meiri árvekni gagnvart efnahagsbrotum.
Í þessu sambandi má líka tala um fræga bók Harvardprófessorsins Stevens Pinker sem nefnist The Better Angels of our Nature. Þar heldur Pinker því fram að ofbeldi hafi snarminnkað á Vesturlöndum og veltir fyrir sér ástæðunum.
Pinker heldur því fram fólk á Vesturlöndum sé orðið víðsýnna, umburðarlyndara, gagnrýnna, siðmenntaðra – ofbeldi og kúgun hafi minnkað, ekki síst gegn konum, samkynheigðum og þeim sem eru af öðum kynþætti. Við hugsum líka betur um þá sem eru veikir og fatlaðir.
Samt þykjumst við finna að ofbeldi og glæpir séu að aukast, höldum að það hljóti að vera þannig og andmælum sjaldnast þeim sem segja að við lifum mikla óöld.
En er það kannski aðallega í gegnum glugga fjölmiðlanna?
Enn eina kenningu má nefna í framhaldi af þessu og hún er dálítið brútal. Þetta var sett fram í þeirri frægu bók Freakonomics sem var mjög víðlesin fyrir um tíu árum. Þar héldu höfundarnir, Levitt og Dubner, því fram, og studdu tölfræðigögnum, að ein ástæða lækkandi glæpatíðni væru fóstureyðingar. Með útbreiðslu þeirra hefði beinlínis verið komið í veg fyrir að fæddist fjöldi karla, sem hefðu búið við lök kjör, oft hjá einstæðum mæðrum, í umhverfi þar sem er mikil hvatning til glæpa.
Þessi mynd birtist með Economist greininni sem vitnað er í hér að ofan, The Curious Case of the Fall in Crime.