Nú er vinsælt að segja að Ríkisútvarpið eigi ekki að vera „allt fyrir alla“. Þetta ómar meira að segja í sölum þingsins.
Það er líkt og þessu sé beint að stjórnendum og starfsmönnum Ríkisútvarpsins – að nú skuli þeir hætta að gera sumt svo þeir séu nú ekki að reyna að þjóna öllum.
En það er ekki svo einfalt. Ríkisútvarpið starfar samkvæmt lögum sem eru sett á Alþingi.
Þar segir að Ríkisútvarpið skuli miðla fréttum og fréttaskýringum.
Fræðsluþáttum.
Afþreyingu af ýmsum toga.
Lista- og menningarefni.
Íþróttaefni.
Efni fyrir börn og unglinga.
Í lögunum stendur að þetta skuli gera á að minnsta kosti tveimur útvarpsrásum og einni sjónvarpsrás. Efninu skal dreift til alls landsins – og einnig skal nota aðrar miðlunarleiðir (semsé internetið).
Ríkisútvarpinu er líka skylt að varðveita hjóðritanir og myndefni sem ætla má að hafi menningarlegt eða sögulegt gildi.
Ríkisútvarpinu er gert að taka þátt í íslenskri kvikmyndagerð með því að leggja áherslu á innlent leikið efni. Því ber líka skylda til að kaupa efni frá innlendum framleiðendum.
Ýmsar fleiri skyldur eru lagðar á herðar Ríkisútvarpsins í lögum, meðal annars um að sinna íslenskri tungu, sögu, náttúru og menningararfleifð.
Það stendur í fyrstu grein laganna að Ríkisútvarpið sé „þjóðarmiðill“. Það á semsagt að framleiða efni og sýna efni sem kemur allri þjóðinni við, óháð búsetu.
Þess er líka sérstaklega getið að Ríkisútvarpið eigi að vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð.
Eins og sjá má í lögunum er það Alþingi sem skilgreinir hlutverk Ríkisútvarpsins með þessum hætti – ekki útvarpsstjóri, stjórn Ríkisútvarpsins eða starfsmenn þess. Eigi að verða grundvallarbreyting á starfseminni sem felst í því að sumu af þessu er ekki sinnt – þá er það löggjafans að ákveða það.
Frá því ég hóf störf hjá Ríkisútvarpinu 2007 hefur verið nær stöðugur niðurskurður og aðhald. Það er ekki bruðlað með fé á Ríkisútvarpinu. Á hverju hausti, við afgreiðslu fjárlaga, fer niðurskurðarkrafan aftur að hljóma. Félagið hefur gengið í gegnum margar hrinur uppsagna síðustu ári – og þær hafa valdið deilum og skapað mikið óöryggi meðal starfsfólks.
Nú er þessi hringekja farin í gang enn einu sinni. Stór hluti vandans eru lífeyrisskuldbindingar sem voru settar inn í Ríkisútvarpið þegar það var gert að opinberu hlutafélagi á sínum tíma. Þegar ég fór að vinna hjá Ríkisútvarpinu var þetta fyrirkomulag lífeyrismála ekki lengur í boði – mínar lífeyrisgreiðslur renna í almennan lífeyrissjóð sem hefur ekki ríkistryggingu.
Annað vandamál er að ríkið heldur eftir hluta af útvarpsgjaldinu. Svo hefur það verið í mörg ár, og líka í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það myndi breyta miklu fyrir fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins að fá útvarspgjaldið óskert – og virðist satt að segja vera einfaldasta lausnin í þessari stöðu.