Prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands ræðst með hörku á Illuga Jökulsson vegna umfjöllunar um Biblíuna í Frjálsum höndum, hinum vinsælu þáttum sem nú eru aftur á dagskrá Rásar 1. Margir kirkjunnar menn taka undir þetta.
Það er prófessorinn Pétur Pétursson sem gengur fram fyrir skjöldu á Facebook og hefur uppi stór orð um fjandskap Ríkisútvarpsins við kristindóminn sem nú birtist enn einu sinni í því að „yfirstjórn útvarpsins“ hafi fengið Illuga frjálsar hendur við útlistun á ritningartextum.
Pétur vill að Ríkisútvarpið fylgi þjóðkirkjunni:
Eitthvað virðist þetta menningarbrot hafa hreyft við yfirstjórn útvarpsins því að nú hefur Illugi Jökulsson aftur fengið frjálsar hendur við val á ritningartextum og heimfærslu þeirra. Hann velur sér 17. aldar ritskýringaraðferð og finnst að vonum margt skrýtið og skondið í þessum fornu textum og hjakkar því sífellt í sama farinu í þeirri viðleitni sinni að draga upp sem allra verstu mynd af kristindómi og gyðingdómi.
Það er ekki langt síðan íslensk þjóð fékk tækifæri til að tjá sig um stöðu þjóðkirkjunnar gagnvart stjórnarskránni og meirihluti hennar vildi áfram að í henni væri ákvæði um þjóðkirkju. Flestir og þar á meðal ég líta svo á að þjóðin hafi farið fram á óbreytt ákvæði, þ.e. að ríkið styðji og verndi þjóðkirkjuna og það sem hún stendur fyrir. Það væri því ekki úr vegi fyrir ríkisútvarpið sem ætla mætti að ætti að fylgja ríkinu í þessu sambandi að sjá til þess að valið á ritningartextum væri í einhverju sambandi við hefðir og akademísk vinnubrögð enda heldur ríkið úti sérstakri deild innan Háskóla Íslands þar sem farið er yfir þessa texta og þeir skýrðir á forsendum gagnrýninna nútíma biblíurannsókna með sama hætti og tíðkast í bókmenntafræði og sagnfræði.
Prófessor Pétur heldur áfram og segist vera búinn að fá nóg af Illuga og reynir ákaft að bendla hann við félagið Vantrú, en mikil fjandskapur ríkir í garð þess í guðfræðideildinni:
Ég verð að viðurkenna að sjálfur er ég fyrir löngu búinn að fá upp í kok á lævísri illkvitni Illuga í garð kristinnar trúar, helgirita kristinnar kirkju og gyðingdóms þó svo að hann skreyti þætti sína með fallegri tónlist og sé að mörgu leyti áheyrilegur. Sé því þannig varið að ríkisútvarpið vilji heiðra félagið Vantrú með þessum 17. aldar biblíufyrirlestrum og ritskýringum Illuga Jökulssonar má benda á að það félag hefur ekki reynst trúverðugt eftir að Siðanefnd HÍ og háskólakennarar afhjúpuðu stefnu þess og starfsemi fyrir nokkru. Það er félag sem bregður yfir sig skikkju andtrúarlegrar vísindamennsku 19. aldar sem á miklu meira skylt við áróður sértrúarflokks en gagnrýna hugsun og fræðimennsku.
Þarna bregður aftur fyrir þeirri furðulegu hugmynd, sem virðist vera reynt að innræta stúdentum í guðfræðideildinni, að félag fólks sem trúir ekki á neinn guð sé sértrúarhópur. Þetta stenst náttúrlega enga skoðun, þarna virðist orðið sértrúarhópur vera orðið einhvers konar uppnefni, nokkurs konar hí á þig – og er það svosem ekki nýtt innan kirkjunnar.
En pistill Péturs virkar greinilega eins og herhvöt því meðal þeirra sem læka hann eða deila honum eru Hjálmar Jónsson, fyrrverandi Dómkirkjuprestur, Karl Sigurbjörnsson, fyrrverandi biskup, Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup, Flóki Kristinsson prestur, Svavar Alfreð Jónsson, prestur á Akureyri, Kristín Þórunn Tómasdóttir, prestur í Laugarneskirkju, Björn Bjarnasson, fyrrverandi kirkjumálaráðherra, Toshiki Toma prestur, Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Neskirkju – jú og guðfræðingurinn Bjarni Randver Sigurðsson.
Illugi Jökulsson svarar Pétri á Facebook og segir meðal annars:
Ég las mér til stórrar furðu eftirfarandi kafla í pistlinum þínum:
„Það væri því ekki úr vegi fyrir ríkisútvarpið sem ætla mætti að ætti að fylgja ríkinu í þessu sambandi að sjá til þess að valið á ritningartextum væri í einhverju sambandi við hefðir og akademísk vinnubrögð enda heldur ríkið úti sérstakri deild innan Háskóla Íslands þar sem farið er yfir þessa texta …“
Ég verð að viðurkenna Pétur að mér leist ekki á blikuna þegar ég skoðaði þetta betur, og fannst þetta á endanum ansi sorglegur kafli, og sorglegt að sjá að margar góðar manneskjur sem ég met mikils hafa lækað þetta hjá þér.
Því hvað ertu að segja með þessum orðum? Þú ert í raun og veru að fara fram á að Ríkisútvarpið „sjái til þess“ að ekki sé lesið annað upp úr Biblíunni en það sem er í „einhverju sambandi við hefðir og akademísk vinnubrögð“ guðfræðideildar Háskóla Íslands.
Og nú finnst mér að þú ættir að hugsa þinn gang, Pétur, og sömuleiðis allir þeir sem lásu þetta og kinkuðu kolli með sjálfum sér og fannst þetta bara helvíti gott hjá þér. Þarna ertu – meðvitað eða ómeðvitað – að fara fram á ritskoðun á einhverjum þröngum trúarlegum forsendum; í raun og veru er auðvelt að leggja út af þessum orðum þannig að í þeim felist að enginn megi skoða Biblíuna nema samkvæmt forsendum guðfræðideildar Háskóla Íslands eða íslensku Þjóðkirkjunnar.
Ég ætla rétt að vona að þú hafir bara ekki áttað þig á því sjálfur út á hvaða braut þú varst þarna kominn, Pétur – að þú hafir bara villst út á þessa braut í gremju þinni yfir því að þurfa að hlusta í útvarpinu þínu á suma þeirra ritningarstaða úr Biblíunni sem ég var að lesa undanfarin tvö sunnudagskvöld.
Því vissulega var yfirlýst ætlun þeirra tveggja þátta beinlínis að vekja athygli á skrýtnum, illskiljanlegum og (stundum) óviðkunnanlegum ritningarstöðum í Biblíunni. En slíkir staðir eru einmitt eitt af því sem gerir Biblíuna svo heillandi bók í öllum sínum ótrúlegu mótsögnum, og ef þér leiðist að heyra þá eða heyra um þá fjallað (sjálfsagt af mismiklu viti) þá slekkurðu bara á útvarpinu og snýrð þér til veggjar með þína eigin Biblíu og lest fallegu og snotru ritningargreinarnar aftur, en leyfir þeim sem líta á Biblíuna bara sem hverja aðra bók að skoða hana frá öðrum hliðum.
En reynir ekki að stjórna þeirri umfjöllun á einhverjum trúarlegum forsendum.
Eins og þú veist eru undarleg teikn á lofti um þessar mundir um að þröngsýni fari nú vaxandi í sumum hópum trúaðs fólks. Við sjáum merki þess hjá ýmsum hópum múslima og því miður líka í nokkrum hópum kristinna manna. Ég trúi því og treysti að þú sért maður frjálslyndur og mundir aldrei vísvitandi ganga fram undir merkjum slíkrar þröngsýni. (Og heldur ekki þeir sem lækuðu þessi orð.)
En þeim mun dapurlegra þótti mér semsagt að sjá ofangreindan kafla í pistli þínum þar sem farið var fram á að Ríkisútvarpið „sæi til þess“ og svo framvegis … Við þurfum svo sannarlega ekki á því að halda að eitthvert yfirvald „sjái til þess“ að lagt sé út af bókum eða hugmyndum „í einhverju sambandi“ við opinbera söguskoðun eða trú, sem því miður fer alltaf fyrr eða síðar að einkennast af þröngsýni og stöðnun.
„Verið vegfarendur,“ sagði Jesú frá Nasaret.