
Flóttamannavandinn í Evrópu er enn eitt dæmið um það hversu Evrópusambandinu gengur illa að höndla stór mál og hversu forystuleysið er mikið. Það er orðið ljóst að þetta er vandamál sem ekki er hægt að leysa innan þjóðríkjanna. Flóttamannastraumurinn hefur verið að magnast undanfarin ár, en ESB virðist algjörlega óundirbúið. Það er eins og ekki hafi mátt viðurkenna hversu vandinn er stór.
Nú stöndum við frammi fyrir, vonandi tímabundnu hruni Schengen-samstarfsins – það eru hörmulegar fréttir. Þjóðverjar loka landamærum sínum vegna þess að þeir segjast ekki ráða við straum flóttafólks. Eigum við kannski eftir að horfa með söknuði aftur til þeirra góðu tíma þegar landamæri í álfunni voru opin? Í hugann kemur bók Stefans Zweig þar sem er lýst frjálsri og opinni Evrópu á árunum fyrir fyrri heimstyrjöld. En því miður er þetta vatn á myllu öfgaafla og maður sér hvarvetna hvernig hlakkar í óvinum frelsisins.