
Viðtal við Björk Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa í Fréttablaðinu í morgun hefur vakið mikla athygli. Blaðakonurnar Ólöf Skaftadóttir og Viktoría Hermannsdóttir eiga heiður skilinn fyrir góð viðtöl sem birtast á föstudögum í blaðinu. Það er ekki oft að stjórnmálamenn kveðja með þessum hætti, viðurkenna beinlínis vanmátt sinn gagnvart kerfinu sem þeir eiga að stjórna. En Björk, sem hefur að miklu leyti starfað að velferðarmálum, er ófeimin að skoða bresti þess – og hreinskilnin er satt að segja hressandi.
Sumir segja að þetta séu bara ónýtir pólitíkusar og tala illa um pólitíkusa eins og þeir sem eru í pólitík séu allt í einu orðnir vont fólk þó að maður hafi verið góður áður – ég veit að ég var góð áður. En allt í einu er maður kominn í hóp vondra. Það sem fólk veit ekki er að það er oft eitthvert regluverk, annaðhvort lögfræði eða stjórnsýsla eða eitthvað annað sem stoppar hlutina innan kerfanna. Kerfin eru orðin svo mikil en samt viljum við auðvitað hafa kerfin til þess að það séu einhverjar reglur.
Björk talar um „veikleikavæðingu“ innan velferðarþjónustunar, stundum hefur það jafnvel verið kallað „aumingjavæðing“, en það þykir fremur ljótt orð. En það er alvarlegt ef velferðarþjónustan er beinlínis að skapa vandamál:
Mér finnst mjög margir félagsráðgjafar vera alltof mikið í því að kortleggja veikleika fólks. Og það má alveg hafa það eftir mér, það er veikleikavæðing innan velferðarþjónustunnar. Og í samfélaginu yfir höfuð. Fólk er upptekið af því hvaða greiningar það hefur fengið, hvaða sjúkdóma það hefur fengið, hverjir hafa skilið í stórfjölskyldunni og mögulega valdið áföllum alveg frá þriggja ára aldri og hverjir hafa orðið fyrir ofbeldi og svona. Þið fjölmiðlarnir algjörlega alið á þessu með því að koma engum í viðtal nema hann hafi orðið fyrir ofbeldi eða áfalli alveg endalaust. Ég segi stundum að Íslendingar séu bara haldnir algjörri áfallastreituröskun og viðhalda sér í áfallinu með því að fá alltaf fleiri og fleiri sögur af fleiri og fleiri áföllum hjá öðrum. Við erum bara föst í þessu.
Stundum hefur verið um það rætt að innan velferðarþjónustunnar séu gildrur sem ungt fólk geti fest í.
Það eiga allir við sinn vanda að stríða en það er ekki gott að festast í vandanum. Félagsráðgjafar eiga að sparka í rassinn á fólki og koma því áfram. Það er verkefni félagsráðgjafa, það hafa allir styrkleika. Ég ætla bara segja það hér, að mér finnst það synd þegar félagsráðgjafinn fer að líta á það sem mannréttindi skjólstæðings síns að reykja kannabis og fokka upp lífi sínu. Að fara að berjast fyrir því að hann fái að vera bara á þeim stað í tilverunni.
Og ennfremur – það sætir tíðindum að þetta kemur frá stjórnmálamanni innan úr Samfylkingunni, en ekki verður deilt um mikla reynslu og þekkingu Bjarkar:
Kannski eigum við að fara að krefjast árangurs. Ég hef talað fyrir því að félagsráðgjafar og það kemur inn á rekstrahallann, að við erum með alltof mikið af vinnufæru fólki á fjárhagsaðstoð. Að sjálfsögðu á samfélagið að veita fólki fjárhagsaðstoð sem ekki getur veitt sér neina björg sjálft. En að hafa fólk sem er vinnufært á fjárhagsaðstoð á sama tíma og okkur sárvantar strætóbílstjóra, fólk í heimaþjónustu, fólk á frístundaheimilin og allt þetta. Það er bara algjörlega galið. Ég sjálf ber ábyrgð ásamt öllum í velferðarráði á þessu regluverki sem fjárhagsaðstoðin er byggð á. Ég hef verið að berjast fyrir því í mörg mörg ár að koma á skilyrðingum í fjárhagsaðstoð en það hefur ekki tekist vegna þess að lögin gefa ekki heimild til þess. Það er ekki í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga að það megi skilyrða fjárhagsaðstoð. Við höfum verið að beita ákveðnum skilyrðingum samt sem áður. Nú er Hafnarfjörður farinn að gera þetta mun harðar með mjög góðum árangri þó að lögunum hafi ekki verið breytt. Það hefur tekist frábærlega vel en við höfum ekki náð því pólitískt fram í Reykjavík vegna þess að lögfræðingarnir segja að það sé mjög hættulegt að fara þessa leið.
Björk segist vilja rannsaka þessa veikleikavæðingu velferðarþjónustunnar, alltof margt vinnufært fólk þiggi fjárhagsaðstoð:
Ég þekki sjálf fullt af þessu unga fólki sem hefur verið á fjárhagsaðstoð og ég sé ekki allan þennan vanda sem er til staðar hjá þessu fólki því ég sé bara ungt og öflugt fólk þangað til það grotnar niður og endar á örorku.