
Almannatengillinn Andrés Jónsson segir að bjartsýni ríki á Íslandi, Mbl.is spyr hann um hvaða áhrif árangur íslenska fótboltalandsliðsins hafi:
Ég fer víða í viðskiptalífinu og það virðist vera mikil bjartsýni í fólki eftir sumarið. Það er jákvæð spenna í gangi og mörg fyrirtæki eru að færa út kvíarnar,“ segir hann bætir við að árangur landsliðsins leggi aukin lóð á vogaskálarnar. „Við höfum séð að þegar handboltaliðinu gengur hvað best fer öll þjóðin í gleðivímu,“ segir hann. „Þetta hleypir blóði í okkur.“
Er þetta svo? Raunar er hæpið að árangur íþróttaliða færi fólki hamingju – nema þá mjög skammvinna. Skuldavandamál, áhyggjur vegna afkomu, persónulegir erfiðleikar hverfa ekki þótt þjóð sé sigursæl í íþróttum. Þetta er fremur eins og að lenda í góðu partíi, en svo heldur lífið áfram sinn vanagang.
En í dag voru lögð fram fjárlög sem eru þau fyrstu síðan í hruninu sem bera ekki einkenni aðhalds og niðurskurðar. Það eru ákveðin tímamót. Það er líkt og stjórnarandstaðan nái ekki almennilega færi á því að gagnrýna fjárlögin. Á sama degi berast fréttir um að kröfuhafar Glitnis muni greiða meira en 200 milljarða króna í ríkissjóð í stöðugleikaframlag svokallað. Ráðgert er að það fari í að borga skuldir ríkissjóðs. Mjög íþyngjandi vaxtagreiðslur lækka, vaxtakostnaðurinn 2014 var næstum 80 milljarðar króna.
Það er svosem ekki víst að ástandið í efnahagsmálunum fari versnandi þótt hægi á vextinum í Kína. Hagtölur frá evrusvæðinu eru ívið betri en búist var við og atvinnuleysi í Bandaríkjunum hefur ekki verið lægra í mörg ár. En það gæti brugðið til beggja vona og haft áhrif á Íslandi. Eins og stendur er þó rífandi gangur í íslenska hagkerfinu og fjárlögin bera merki þess. Það er hins vegar ansi langt í að hægt sé að segja að hér ríki stöðugleiki – sem hlýtur að vera markmiðið.