
Ólafur Ragnar Grímsson hélt ræðu við setningu Alþingis þar sem hann varaði við breytingum á stjórnarskránni, sérstaklega hvað varðar ákvæði um fullveldi Íslands. Hann varar líka við því að kosið verði um stjórnarskrárbreytingar samhliða forsetakosningum.
Eins og stendur eru horfur á að í tengslum við forsetakosningar á næsta ári verði greidd atkvæði um ákveðnar stjórnarskrárbreytingar.
Einhvers konar auðlindaákvæði, ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur sem kann að taka bitið úr málskotsrétti forsetans og ákvæði um fullveldisframsal.
Hvað varðar auðlindaákvæðið þá er ekki auðvelt að ná samkomulagi um orðalagið, ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslur kann að taka frá forsetanum þau völd sem Ólafur Ragnar hefur af harðfylgi náð til embættisins. Það er spurning hvaða sátt verður um þetta – en Ólafur verður varla eilífur í embætti, það mátti skilja á honum í ræðunni í dag að hann ætlaði að hætta – og hver veit nema að næsti forseti verði til dæmis Pírati?!
Stjórnarflokkunum líst varla ekki vel á það. En það er rétt hjá Ólafi Ragnari að það er skrítið að kjósa forseta samhliða kosningum um breytingar sem gætu haft mikil áhrif á valdsvið hans.
Hvað varðar fullveldisframsalið þá hafa margir talið að EES-samingurinn brjóti núorðið alvarlega í bága við stjórnarskrána. Norðmenn hafa til dæmis gert stjórnarskrárbreytingar þessa efnis. En svo eru aðrir sem hafa talið að með stjórnarskrárbreytingum í þessa átt yrði opnað fyrir aðild að ESB. Ólafur Ragnar sló þarna þungan tón – talaði um „helgan arf sjálfstæðisins“ sem engin þörf væri á að breyta.
Það er svo athyglisvert í þessu sambandi að forsetakosningar eru ráðgerðar 25. júní á næsta ári. Þá verður væntanlega kosið um stjórnarskrárbreytingar líka. Þetta verður í miðju Evrópumóti í fótbolta þar sem Íslendingar hafa unnið sér þátttökurétt í fyrsta skipti. Forsetakosningar, stjórnarskrárkosningar, fótbolti – og allt um hásumar. Kannski dálítið stór pakki?
Það er reyndar spurning hvort Ólafur Ragnar hafi ekki sprengt fyrirætlanir stjórnarinnar í loft upp með þessari ræðu sinni – það verður að segjast eins og er að í henni er talsvert af pólitísku sprengiefni.