
Sjálfstæðisflokkurinn gerir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að formanni utanríkismálanefndar. Ekki er vitað til þess að hún hafi sérstaklega gefið sig að utanríkismálum ólíkt fráfarandi formanni nefndarinnar, Birgi Ármannssyni, sem er settur af nokkuð óvænt.
Hann fær að verða varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Fyrir Birgi er þetta umtalsverð stöðulækkun. Maður fær eiginlega ekki séð að Birgir hafi gert neitt til að verðskulda slíka meðferð.
Hanna Birna tilkynnir líka að hún sækist eftir endurkjöri sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Formaðurinn, Bjarni Benediktsson, segir ekki annað en að hún þurfi endurnýjað umboð.
En er landsfundur Sjálfstæðisflokksins líklegur til að kjósa Hönnu Birnu aftur? Því geta þeir svarað sem þekkja sálfræði slíkra samkoma – landsfundir geta verið talsvert á skjön við almenningsálitið í samfélaginu. Menn hafa gert því skóna að Ólöf Nordal myndi snúa aftur í varaformannssætið, en hún mun ekki vilja fara fram gegn Hönnu Birnu. Það er ljóst að sterk öfl innan flokksins styðja Hönnu Birnu og gefa það ekkert eftir.
Þetta er líka spurning um skilaboðin sem koma frá landsfundi. Hér áður voru þessir fundir aðallega hannaðir með það að markmiði að sýna styrk Sjálfstæðisflokksins. Nú er líkt og kjósendur hafi ekki jafn mikinn smekk fyrir slíkum sýningum.
Það geta líka orðið uppákomur á landsfundum sem erfitt er að stýra, líkt og þegar Davíð Oddsson hélt ræðuna frægu á fundinum 2009 og reif í sig endurreisnarskýrslu flokksins eða í ályktuninni sem kom úr einni nefnd síðasta landsfundar þess efnis að „kristin gildi“ skyldu ráða lagasetningu á Íslandi.