fbpx
Laugardagur 15.nóvember 2025
Eyjan

Einkabílarnir og byggingarlandið

Egill Helgason
Fimmtudaginn 27. ágúst 2015 19:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær ók ég um Kjalarnes í hávaðaroki. Kjalarnes er ljómandi fallegt þar sem það kúrir við Esjurætur, ein af Íslendingasögunum dregur nafn af því, en það verður að segjast eins og er Kjalarnes er afar vindasamur staður. Það var miklu hvassara á Kjalarnesi en annars staðar sem við ókum um á leið frá Akureyri.

Ég fór að hugleiða útþenslu byggðarinnar í Reykjavík. Kjalarnes telst nú vera partur af sjálfri Reykjavík, en það liggur innan höfuðborgarsvæðisins svokallaðs. Við höfum horft upp á óskaplega útþenslu þess á þessari öld, í bókinni Scarcity in Excess – The Built Environment and the Economic Crisis in Iceland má lesa að vöxturinn hafi verið um 25 prósent á árunum frá 2000-2008. Það er ótrúlega há tala – í sömu bók má lesa að lengd hraðbrauta hafi vaxið um 60 kílómetra en annarra gatna um 163 kílómetra.

Eitt af því sem í þessu felst er ótrúleg sóun á landi. Byggðin sem þarna varð til er mestanpart mjög dreifð og akstursleiðir langar. Og það er örugglega ekki hægt að segja að þarna hafi verið „þrengt að einkabílnum“ eða „fjölskyldubílnum“ eins og stundum er talað um. Þvert á móti, byggðin þróaðist í þá átt að enn erfiðara en áður er að komast um höfuðborgarsvæðið án þess að hafa bíl, svæðið sem strætisvagnar þurftu að komast yfir lengdist sem þessu nam.

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar ágæta grein í Kjarnann og birtir tölur um bílaumferðina. Þórunn skrifar:

Undanfarna áratugi hefur bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu aukist meira hlutfallslega en íbúafjöldinn. Höfuðborgarsvæðið hefur þanist út, nú búa miklu færri íbúar á hverjum hektara lands en fyrir 30 árum. Þrjár af hverjum fjórum ferðum sem farnar eru á svæðinu eru farnar á einkabíl. Hlutfallið er óvíða hærra en það, og þá skiptir engu máli hvort um er að ræða borgir í heitari löndum eða borgir á svipaðri breiddargráðu og við. Og fyrst farið er að ræða um staðsetningu þá er tómt mál að tala um að það sé svo kalt á Íslandi að við verðum bara að vera á bílum. Í öðrum norðlægum borgum af svipaðri stærð og höfuðborgarsvæðið er ganga fleiri, hjóla eða nota almenningssamgöngur. Reykjavík er með langhæsta hlutfall einkabílaferða.

Hvers vegna nefni ég Kjalarnes? Jú, það getur nefnilega svo farið ef við gáum ekki að okkur að byggingarlandið á höfuðborgarsvæðinu klárist. Þótt víðsýni sé í höfuðborginni er byggingarlandið ekki ótakmarkað. Við verðum bráðum komin í rokið á Kjalarnesi. Eins og Þórunn bendir á verður einfaldlega ekki til land fyrir höfuðborgarbúa framtíðarinnar:

Ef haldið yrði áfram á sömu braut myndi bílum fjölga um 45 þúsund, bílastæðum þyrfti að fjölga um 85 til 130 þúsund og 60 prósent af uppbyggingu húsnæðis yrði utan núverandi byggðamarka. Það myndi þýða aukna bílaumferð, lengri vegalengdir og það þyrfti að ráðast í miklar framkvæmdir til þess ná fram fullnægjandi afkastagetu. Fólk myndi almennt verja miklu meiri tíma í bíl og aka lengri vegalengdir til að komast leiðar sinnar en það gerir núna. Óskar einhver sér þess?

Screen-Shot-2015-08-25-at-13.55.26

Línurit um ferðamáta í norðlægum borgum sem Þórunn Elísabet Bogadóttir birtir í grein sinni í Kjarnanum. Línuritið er komið úr skýrslu Mannvits, Höfuðborgarsvæðið 2040 – mat á samgöngusviðsmyndum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Falleinkunn fyrir Guðrúnu – afturhaldið situr á þingi undir merkjum Sjálfstæðisflokksins

Orðið á götunni: Falleinkunn fyrir Guðrúnu – afturhaldið situr á þingi undir merkjum Sjálfstæðisflokksins
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Dagur B. Eggertsson: Vextir á framkvæmdalánunum fjórfaldir hér á landi – látið eins og ekkert sé hægt að gera

Dagur B. Eggertsson: Vextir á framkvæmdalánunum fjórfaldir hér á landi – látið eins og ekkert sé hægt að gera
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Þolinmæði þrotin gagnvart óhæfum, vanstilltum og spilltum silkihúfum á toppi kerfisins

Svarthöfði skrifar: Þolinmæði þrotin gagnvart óhæfum, vanstilltum og spilltum silkihúfum á toppi kerfisins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Fast skotið í Háskóla Íslands: Dauðadómur yfir bók Steinunnar Kristjánsdóttur – fræðilegt fúsk

Fast skotið í Háskóla Íslands: Dauðadómur yfir bók Steinunnar Kristjánsdóttur – fræðilegt fúsk