

Fyrir gamlan bókabéus er fátt ánægjulegra en að finna góða bókabúð. Því miður fer þeim fækkandi í veröldinni, bókaverslanir loka, aðrar breytast í minjagripabúðir eða sölustaði fyrir alls kyns smávarning, en svo eru fáeinar bækur í hillum, svona eins og af gömlum vana.
Ég gekk fram á þessa búð, Munro’s Books í Government Street í Victoria. Victoria er á Vancouver-eyju, hún er höfuðborg British Colombia, þykir afar ensk, þar eru frægir blómagarðar, mikil tedrykkja og bæjarbúar iðka krikket.
Síðan 1984 hefur bókabúðin verið í glæsilegri byggingu þar sem er afar hátt til lofts og vítt til veggja. Þarna var áður til húsa Royal Bank of Canada – svona flott hús eru yfirleitt ekki byggð utan um bókaverslanir. Og eins og í alvöru bókabúðum er þarna að finna hilluraðir með skáldsögum, ljóðum, sagnfræði, ævisögum, heimspeki – jú, og auðvitað líka reyfurum, matreiðslubókum og ferðabókum sem eru aðaluppistaðan í bókabúðum núorðið.
Munro’s Books á rætur sínar að rekja til 1963, þá var hún stofnuð af hjónunum Jim og Alice Munro og vær ætlað að höfða til ungs fólks með bókmenntaáhuga. Nafn hennar er kunnuglegt, jú, hún vann Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 2013 og er einn frábærasti smásagnahöfundur allra tíma.
Ég keypti tvær bækur í búðinni, fannst viðeigandi að fara út með smásagnasafn eftir Alice Munro, og svo var það bók sem fjallar um hvernig internetið er að breyta öllum samskiptum okkar og jafnvel því hvernig sjálft heilabú mannins virkar. Þetta er veruleiki sem við vitum ekkert hvað leiðir okkur – að minnsta kosti er víst að öllu þessu fylgir mikið eirðarleysi og flökt sem fylgir því að að beina huganum að mörgum hlutum í einu.
Og um leið spyr maður hversu lengi bókabúð eins og Munro’s geti lifað á svona tímum?
