fbpx
Laugardagur 15.nóvember 2025
Eyjan

Er loks komið að falli Harpers á tíma efnahagssamdáttar í Kanada?

Egill Helgason
Sunnudaginn 16. ágúst 2015 07:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, hefur boðað til kosninga. Hann tilkynnir þetta reyndar óvenju snemma, kosningarnar verða ekki fyrr en 19. október. Orðrómur segir að þetta geri Harper vegna þess að Íhaldsflokkur hans á meiri peninga en aðrir flokkar. Kosningabaráttan er þegar byrjuð, flokkarnir þurfa að eyða umtalsverðum fjárhæðum, þar gætu Íhaldsmenn haft forskot síðustu vikurnar þegar sjóðir hinna flokkanna eru að þverra.

Harper hefur setið í embætti í nær áratug. Hann er mjög umdeildur og flokkur hans stendur illa í skoðanakönnunum. Eins og stendur er það Nýji demókrataflokkurinn sem er með mest fylgi, svo koma Frjálslyndir – þar er í forystu Justin Trudeau, sonur Pierre sem var frægur forsætisráðherra á sínum tíma – og loks Íhaldsflokkurinn. Í Kanada hefur tíðkast að sá flokkur sem fær mest fylgi stjórnar, það er ekki hefð fyrir samsteypustjórnum.

Það vakti mikla athygli síðastliðið vor þegar Nýir demókratar sigruðu í Alberta, en þar hefur verið helsta vígi Harpers. Alberta er sveitafylki sem varð að einhverju mesta olíusvæði í heimi. Nýju demókratarnir eru lengst til vinstri í kanadískum stjórnmálum og því kom sigur þeirra mjög á óvart.

Efnahagsástandið í Kanada er ekki gott. Landið hefur smátt og smátt orðið mjög háð olíuframleiðslunni og nú eru verð á olíu í botni. Þetta hefur til dæmis komið niður á efnahag Alberta, Harper kennir reyndar Nýju demókrötunum um, þótt þeir séu nýkomnir til valda. Það er nokkuð dæmigert fyrir aðferðir hans.

Harper er afar umdeildur. Hann þykir mjög einráður, deilir helst ekki fyrirætlunum sínum með öðrum og leyndarhyggja hefur aukist mjög í kanadískum stjórnmálum í tíð hans. Nú fyrir kosningarnar vill hann helst ekki mæta andstæðingum sínum í sjónvarpi. Samband hans við ýmsa hópa er mjög slæmt, þar eru efstir á blaði fjölmiðlamenn, vísindamenn, sjálfstæðar eftirlitsstofnanir og loftslagsfræðingar.  Mörgum þykir Harper hafa skaðað ímynd Kanada sem fyrirmyndar lýðræðis- og fjölmenningarríkis sem nýtur mikillar virðingar á alþjóðavettvangi. Á einum stað segir að hugur Kanada hafi verið að lokast á tíma Harpers.

Ýmis hneykslismál gera honum líka erfitt fyrir. Hann hefur orðið uppvís að margvíslegri vinahygli, til dæmis með því að skipa fólk handgengið sér í Öldungadeild kanadíska þingsins. Þar fær handvalið fólk að sitja um aldur og ævi og þiggur góð laun og alls konar sporslur. Deildin er satt að segja hálfgerður brandari, tákn um pólitíska spillingu. Einn af vildarvinum Harpers, Mike Duffy, var gerður að öldungadeildarþingmanni. Hann varð uppvís að því að nota risnureikning sinn frjálslega, það endaði með því að Nigel Wright, starfsmannastjóri forsætisráðherrans, skrifaði ávísun upp á 90 þúsund dollara til að endurgreiða kostnað vegna Duffys. Þetta komst upp og málið fór til lögreglu. Nú er það fyrir dómstólum og enn er ekki vitað hvaða þátt Harper átti í þessu hneyksli.

En þetta er bara eitt af mörgum málum sem Íhaldsmenn og vinir Harpers hafa átt í. Það er þó of snemmt að afskrifa hann. Eins og áður segir á Íhaldsflokkurinn digra kosningasjóði og Harper hefur áður sýnt að hann hefur hæfileika til að lifa af í pólitík. En efnahagssamdrátturinn hefur líka sitt að segja. Það er mikið óvissuástand framundan og kanadadollarinn hefur veikst. Það er aftur farið að líkja honum við matadorpeninga – í samanburði við hinn volduga dollar sunnan landamæranna.

Í því sambandi má nefna að á Íslandi voru um tíma uppi hugmyndir um að taka upp Kanadadollar. Líklega dytti engum það í hug núna.

url-27

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Falleinkunn fyrir Guðrúnu – afturhaldið situr á þingi undir merkjum Sjálfstæðisflokksins

Orðið á götunni: Falleinkunn fyrir Guðrúnu – afturhaldið situr á þingi undir merkjum Sjálfstæðisflokksins
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Dagur B. Eggertsson: Vextir á framkvæmdalánunum fjórfaldir hér á landi – látið eins og ekkert sé hægt að gera

Dagur B. Eggertsson: Vextir á framkvæmdalánunum fjórfaldir hér á landi – látið eins og ekkert sé hægt að gera
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Þolinmæði þrotin gagnvart óhæfum, vanstilltum og spilltum silkihúfum á toppi kerfisins

Svarthöfði skrifar: Þolinmæði þrotin gagnvart óhæfum, vanstilltum og spilltum silkihúfum á toppi kerfisins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Fast skotið í Háskóla Íslands: Dauðadómur yfir bók Steinunnar Kristjánsdóttur – fræðilegt fúsk

Fast skotið í Háskóla Íslands: Dauðadómur yfir bók Steinunnar Kristjánsdóttur – fræðilegt fúsk