
Sérkennilegt, og kannski dálítið broslegt, er að sjá leiðara Morgunblaðsins þar sem Gunnari Braga Sveinssyni er úthúðað fyrir að standa með viðskiptabanni vestrænna ríkja gegn Rússlandi. Meðal annars er Gunnar Bragi ásakaður fyrir að hafa ekki samráð.
Það þarf kannski ekki að minna á að þarna skrifar fyrrverandi forsætisráðherra, en í stjórnartíð hans var því líkast að samráð eða samræða væri til marks um veikleika – ef ekki barasta aumingjaskap. Þannig ákvað hann, ásamt utanríkisráðherra þess tíma, að fara í stríð í Írak án þess að spyrja nokkurn mann.
En tíðindin felast kannski ekki síst í því að þarna er látið af átrúnaði á vestræna samvinnu sem lengstum var nánast kredda í Sjálfstæðisflokknum. Það má reyndar sjá að Styrmir Gunnarsson og Björn Bjarnason eru ennþá á gömlu línunni, þeir vilja standa með Nató og vinum í vestri. En Davíð Oddsson sem er kominn í fúll tæm djobb hjá stórútgerðinni er kominn á aðra skoðun.
Árni Snævarr, fyrrverandi fréttamaður, greinir þetta skemmtilega á Facebook:
Þessi leiðari er einhver mestu pólitísku tíðindi síðustu ára: Skuggaformaður Sjálfstæðisflokksins (að eilífu) hefur snúið bakið við samstöðu lýðræðisríkja. Mikið hlakka ég til að lesa hvað Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur að segja um það að hinn vammlausi leiðtogi lífs hans hafi nú snúið endanlega baki við samstöðu vestrænna þjóða! Þetta er reyndar algjörlega lógískt hjá Davíð og fullkomið samræmi í afstöðu hans, því hann hefur hatast við samstarf lýðræðisríkja í Evrópu um árabil. Allir þekkja svo sárindin þegar í ljós kom að Bush stóð algjörlega á sama um meinta vináttu hans við Davíð. Sjálfstæðisflokkurinn fylgir á eftir og Sigmundur Davíð stendur auðvitað Davíð miklu nær en Bjarni Benediktsson gerir, og ef framsóknarmenn kunna eitthvað þá er það að haga seglum eftir vindi.
Pawel Bartoszek er hægri maður, hefur starfað í Sjálfstæðisflokknum, en hefur glögga sýn á málin vegna pólsks uppruna síns. Pavel kemst að kjarna málsins í pistli sem hann skrifar í Fréttablaðið:
Vestræn samvinna var lengi kjarninn í stefnu íslenskra hægrimanna. En nú hefur Morgunblaðið ásamt hluta Sjálfstæðisflokksins blásið til sóknar og vilja þau rjúfa samstöðu vestrænna ríkja vegna hagsmuna útgerðarinnar sem má ekki lengur selja fisk til Rússlands. Það má hafa samúð með fyrirtækjum sem missa viðskipti en málið snýst um þjóðarhag, þjóðarhag til lengri tíma litið.
Með þessum aðgerðum, sem beinast að fjórum smáríkjum, er stórveldið að þreifa fyrir sér. Aðgerðunum er að sjálfsögðu ætlað að breyta stefnu Íslands. Ef það gengur eftir þá koma öfgahægrimennirnir í Frakklandi og Ungverjalandi og fara að þrýsta á um svipað. Samstaðan mun hrynja og Pútín getur haldið áfram að tálga í sundur nágrannaríki Rússlands með hervaldi.
Umhverfis Ísland er 200 mílna landhelgi. Okkar fáu varðskip geta vitanlega ekki varið þessa eign okkar að ráði, nema hugsanlega fyrir einstaka veiðiþjófi á furðufána. Við eigum allt okkar undir því að borin sé virðing fyrir alþjóðalögum og landhelgi ríkja sé virt. Í ýtrustu neyð þurfum við síðan að reiða okkur á það að aðrar þjóðir verði tilbúnar til að leggja líf eigin borgara í hættu til þess að við fáum áfram að eiga okkar fisk í friði. Við getum ekki ætlast til að þær geri það umhugsunarlaust ef við sjálf erum ekki til í að færa neinar fórnir.