
Leikkonan Kristín Þóra Haraldsdóttir hefur lengi verið þekkt fyrir mikinn metnað, kraft og fjölbreytt hlutverk á sviði og í sjónvarpi. Undanfarin ár hefur hún hins vegar ekki aðeins tekist á við krefjandi verkefni í starfi, heldur einnig farið í gegnum persónulegt ferðalag. Fyrir um sex árum lenti Kristín í kulnun eftir langvarandi álag, sjálfsniðurrif og stöðuga streitu, sem að lokum leiddi til þess að taugakerfið hrundi og líkaminn sagði stopp.
Í Fókus, viðtalsþætti DV, opnar Kristín Þóra sig um kulnunina, aðdragandann að henni og það afgerandi augnablik þegar hún áttaði sig á að hún þyrfti að fá faglega aðstoð. Hún ræðir einnig um muninn á heilbrigðum metnaði og sjálfsniðurrifi, hvernig streita getur smám saman tekið yfir lífið og hversu mikilvægt það er að greina á milli kulnunar og annarra andlegra veikinda. Samhliða því fjallar hún um annasamt síðasta ár, ný hlutverk í þáttunum Dönsku konunni á RÚV og Heimaey í Sjónvarpi Símans, sýningu hennar Á rauðu ljósi á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu sem hefur slegið rækilega í gegn – og hvernig hún tekst í dag á við álag með meiri mýkt, forgangsröðun og stuðningi fjölskyldunnar.
Kristín Þóra segir að kulnunin hafi átt sér langan aðdraganda. „Ég var búin að vera þreytt í rosa langan tíma, svo fóru að koma minnistruflanir og ég einhvern veginn var aldrei að hægja á mér. En svo þegar ég byrjaði að reyna að hægja á mér, áður en ég klessti á vegg, þá var það aðeins of seint. Líkaminn var orðinn svo upptrekktur,“ segir Kristín.
„Og ég sé það núna hvað ég var með rosalega mikið sjálfsniðurrif. Það var aldrei neitt nógu gott sem ég var að gera, það hafði mikil áhrif. Það reynir á og skapar streitu.“ Kristín segir að það sé munur á heilbrigðum metnaði og vilja gera betur, og sjálfsniðurrifi.
„Stundum var þetta drifkraftur, en þarna var þetta orðið bara svona… þetta var farið að taka of mikinn toll og ég er frekar nýbúin að læra það hvað það tók mikinn toll.“

Kristín byrjaði að kveikja á perunni að það væri eitthvað að þegar einkennin fóru að vera líkamleg.
„Minnistruflanir, rosalegur pirringur allt í einu og mér fannst bara vinnan glötuð. Fáránlegt að vera í búning og bara eitthvað rugl. Það er bara rosalega mikilvægt að vera í búningi sem leikari, það er bara og yfirleitt eitthvað sem ég hef sóst mjög mikið eftir, að vera ekki ég á sviðinu, heldur vera einmitt í búning,“ segir Kristín og hlær. „Mér finnst það eitthvað svo ótrúlega lýsandi. Það var rautt flagg.“
Kristín segir að þreyta og pirringur sé ekki endilega merki um kulnun. „Stundum er maður bara þreyttur og þarf að komast í frí. Stundum ertu bara búinn að sofa lítið, þess vegna ertu með minnistruflanir. Stundum er eitthvað rosalega mikið í gangi í lífi þínu og þess vegna ertu ólík þér tilfinningalega,“ segir Kristín.
„En þegar nokkur einkenni eru saman komin og fara ekki, þessi ólýsanlega þreyta. Þetta er ekki alltaf kulnun og það er mjög mikilvægt að fá hjálp að greina þar á milli. Stundum er þetta þunglyndi og það eru bara allt önnur ráð sem virka. Því fyrir kulnun þarftu meiri hvíld meðan fyrir þunglyndi þarftu kannski meira virkniprógramm til að koma þér af stað.“

Kristín segir einnig að streita sé ekki alslæm. „Streita í smá tíma, sem ég tala líka um í sýningunni [Á rauðu ljósi], er allt í lagi. Það er þegar hún er langvarandi og stanslaus sem það verður að vandamáli,“ segir hún og bætir við að í hennar tilfelli var hún farin að finna fyrir mikilli pressu og streitu í vinnunni, sem hún vanalega elskaði og naut þess að sinna. „Þegar allt er orðið streita, það er hættulegt. Það er aldrei augnablik í deginum þar sem þú andar léttar.“
Kristín segir Íslendinga mjög gjarna á að taka þetta alla leið. „Ég og rosalega margir sem ég þekki, og mjög margir Íslendingar, erum svolítið öfgakennd. Maður er bara annaðhvort á Balí í fríi að leita að einhverju svona… algjörri kyrrð í höfðinu. Eða erum bara gjörsamlega á fullu,“ segir hún og bætir við: „Það má blanda þessu saman.“
„Eins og ég segi þá var langur aðdragandi en það var eitt mjög afgerandi og skýrt augnablik sem var bara… það var engin leið til baka án þess fá faglega aðstoð,“ segir hún.
„Ég var að keyra á gatnamótunum hjá Grensás og Ármúla, rétt áður en maður kemur í Glæsibæ og mundi ekki hvernig umferðarljósin virka. Mundi bara raunverulega ekki hvort rautt þýðir áfram eða stopp. Ég vissi ekki hvar ég var, vissi ekki hvert ég var að fara,“ segir Kristín, sem taldi sig vera í blóðsykursfalli og fór inn í Glæsibæ. „Þá gerðist þetta aftur. Ég vissi ekki hvar ég var og hvernig ég komst þangað.“

Kristín hafði verið hjá lækni fyrir þetta, því hún var byrjuð að reyna að ná kerfinu sínu niður en segir að hún hafi verið aðeins of sein að grípa í taumana. Eftir atvikið sagði læknirinn að taugakerfið hennar væri í hruni.
„Mér fannst það svo vandræðalegt. Ég var svo ekki til í það,“ segir Kristín sem hefði frekar kosið að vera fótbrotin, með einhver sjáanleg meiðsl sem auðvelt væri að laga, sem allir vita hvað er og enginn færi að efast um hvort hún væri raunverulega fótbrotin eða ekki, engum þætti skrýtið ef hún færi í veikindaleyfi vegna fótbrots, en sagan er gjarnan önnur þegar kemur að kulnun.
Kristín ræðir nánar um þennan tíma í þættinum, sem má hlusta á hér, og því sem tók við og lærdóminn sem hún hefur sankað að sér um kulnun og streitu síðustu ár. Hún er enn að sýna Á rauðu ljósi í Þjóðleikhúsinu þar sem hún talar til áhorfenda á bráðfyndinn hátt, en af einlægni og hispursleysi, um stress, streitu, seiglu, aumingjaskap og dugnað.