

Í Bandaríkjunum býr hæst hlutfall afkomenda innflytjenda frá Norðurlöndunum í Minnesota ríki. Undanfarnar vikur og misseri hafa verið afhjúpuð umfangsmikil fjársvik í velferðarkerfi ríkisins sem að þó nokkrum hluta er fjármagnað af stjórnvöldum í Washington og standa nú öll spjót á yfirvöldum í Minnesota sem halda því fram að svikin séu ekki að öllu leyti jafn umfangsmikil og af sé látið. Það er þó ekki fólk af norrænum uppruna heldur aðallega sómölskum sem hefur verið sakfellt eða ásakað um að hafa staðið fyrir þessum svikum.
Bandarískir fjölmiðlar hafa fjallað töluvert um þessi mál að undanförnu. Um 100 manns hafa þegar verið ákærðir eða dæmdir fyrir fjársvikin sem talið er að geti numið allt að níu milljörðum dollara (1.127 milljörðum íslenskra króna) en ekki virðist hafa tekist að greina nákvæmlega hversu mikið var svikið út úr kerfinu.
Það sem kom málinu af stað eru svik sem snerust um áætlun sem komið var á fót í Covid-faraldrinum og var að mestu leyti fjármögnuð af alríkisstjórninni í Washington. Áætlunin gekk út á að tryggja mataraðstoð við börn í viðkvæmri stöðu, á meðan faraldrinum stóð. Fyrirtæki og félagasamtök gátu þá fengið framlög frá ríkinu til að útvega börnunum mat en svikahrapparnir sendu reikninga og fengu þá greidda án þess að hafa nokkurn tímann útvegað neinn mat. Gáfu þeir jafnvel upp fölsk nöfn á börnum sem þeir sögðu hafa nýtt sér aðstoðina. Um 80 manns hafa verið ákærðir fyrir sinn þátt í þessum svikum og af þeim hafa um 60 þegar hlotið dóm.
Hópurinn sem tók þátt í svikunum skipti ágóðanum með sér og nýtti hann meðal annars til kaupa á fasteignum, lúxusbílum, skartgripum og flugmiðum.
Það var þó víðar í Bandaríkjunum sem áætlanir og útgjöld hins opinbera vegna covid-faraldursins voru nýtt til fjársvika. Þegar yfirvöld í Minnesota fóru fyrst að skoða ásakanir um að áætlunin væri nýtt til fjársvika drógu þau fljótlega í land eftir að hafa verið sökuð, af þeim sem skoðunin beindist að, um mismunun á grundvelli kynþáttar. Þetta kemur fram í skýrslu ríkisendurskoðunar Minnesota og þar eru yfirvöld í ríkinu gagnrýnd fyrir að hafa ekki gengið nógu hart fram við að fylgjast með ráðstöfun fjárins og að hafa ekki gripið nógu snemma í taumana þegar við hafi blasað hvað væri að gerast.
Hvergi í Bandaríkjunum en í Minnesota búa fleiri af sómölskum uppruna. Flestir sem tóku þátt í að svíkja fé út úr mataraðstoðinni tilheyra einmitt þeim hópi. Í kjölfar þessa máls og fleiri svikamála í Minnesota jós Donald Trump Bandaríkjaforseti úr skálum reiði sinnar í garð samfélags Sómala í Bandaríkjunum, kallaði þá öllum illum nöfnum og sagði best fyrir Bandaríkin að losna við alla frá Sómalíu. Hefur innflytjendaeftirlitið (ICE) mjög beint sjónum sínum að Minnesota og elt þar uppi fólk frá Sómalíu sem er að sögn ekki með löglega búsetu í Bandaríkjunum en Trump hefur hótað að dvalarleyfi allra sem komið hafa til landsins frá Sómalíu verði afturkölluð en um helmingur fólks af þessum uppruna í Minnesota er með bandarískan ríkisborgararétt.
Trump og fleiri í ríkisstjórn hans hafa gagnrýnt Tim Walz ríkisstjóra Minnesota og yfirvöld í ríkinu almennt fyrir að hafa svo slælegt eftirlit með ráðstöfun opinberra fjármuna og hefur forsetinn talað fyrir því að stöðva öll framlög alríkisins til Minnesota.
Mataraðstoðin frá Covid-tímanum er þó ekki eini hluti velferðarkerfis Minnesota sem hefur verið misnotaður og svikahrapparnir eru ekki eingöngu af sómölskum ættum.
Lagðar hafa verið fram ákærur á hendur alls 13 manns fyrir að svíkja fé út úr áætlunum í Minnesota sem snerust um húsnæðisaðstoð annars vegar og aðstoð við einhverfa hins vegar. Tveir menn frá Pennsylvaníu, sem eru ekki ættaðir frá Sómalíu, hafa verið sakaðir um að hafa ferðast til Minnesota sérstaklega í því skyni að svíkja fé út úr fyrrnefndu áætluninni.
Henni var komið á 2020 til að aðstoða aldraða og fatlaða í húsnæðisleit. Áætlunin var á endanum lögð niður eftir að það uppgötvaðist að hún var mikið nýtt til fjársvika. Segja saksóknarar að mjög auðvelt hafi verið að nýta sér áætlunina til svíkja út fé þar sem ekki hafi verið erfitt að fá aðgang að henni og skrásetningu hafi verið verulega ábótavant.
Menninir frá Pennsylvaníu, sem höfðu engin tengsl við Minnesota, létu skrá sig í áætlunina undir því yfirskini að þeir myndu aðstoða markhópana í húsnæðismálum en rukkuðu ríkið um alls þrjár og hálfa milljón dollara ( um 440 milljónir íslenskra króna) án þess að veita nokkra aðstoð.
Önnur áætlun sem fjársvikarar hafa nýtt sér snerist um aðstoð Minnesota ríkis við einhverf börn og eins í hinum tilfellunum fóru svikin einkum þannig fram að ríkið var rukkað fyrir velferðarþjónustu sem var aldrei veitt eða þá, eins og raunin var með hinar áætlanirnar var eins miklu bætt á reikninga og mögulegt þótti. Einn aðili er sakaður um að hafa fengið foreldra barna í lið með sér og borgað þeim hluta af ágóðanum fyrir að skrá börn sín til þátttöku í áætluninni. Voru foreldranir flestir úr samfélagi Sómala og fólks af sómölskum ættum.
Sex hafa verið ákærðir í tengslum við þessi fjársvik.
Enn önnur áætlun í velferðarkerfinu er til rannsóknar vegna gruns um að hún hafi verið nýtt til fjársvika en hún snýr að aðstoð og þjónustu á heimilum fatlaðs fólks og leikur grunur á að fötluðum hafi verið komið fyrir í húsnæði af hinum óprúttnu aðilum og þeir síðan rukkað ríkið fyrir þjónustu við hina fötluðu sem aldrei hafi verið veitt.
Í dag og í gær bættist síðan enn við ásakanir um fjársvik í velferðarkerfi Minnesota og þá helst af hálfu fólks af sómölskum ætttum.
Birtar voru í fjölmiðlum upptökur úr öryggismyndavélum frá 2015, þar mátti sjá foreldra fara með börn sín inn á leikskóla og skrá þau inn en fara svo með þau strax aftur heim. Eru uppi ásakanir um að nokkur fjöldi leikskóla í ríkinu hafi í raun og veru aldrei veitt neina þjónustu og verið þannig nýttir til fjársvika. Eru þá foreldrar sagðir hafa þegið mútur fyrir að skrá börn sína á þessa svika leikskóla.
Eru upptökurnar hluti af rannsókn sem fór af stað 2018 en ekki virðist ljóst hvort henni hafi verið hætt.
Einn af þessum meintum fals leikskólum er í Minneapolis, stærstu borg Minnesota, eigandi hans fullyrðir að þar sé full þjónusta veitt en yfirvöld segja hins vegar skólann hættan starfsemi og ekkert fé renni þangað. Segja yfirvöld að ekki hafi fundist sannanir um að fleiri meintir leikskólar, sem sagðir hafa verið nýttir til fjársvika, séu ekki að veita neina þjónustu.
Donald Trump og flokksfélagar hans í Repúblikanaflokknum gagnrýna Tim Walz ríkisstjóra Minnesota, sem er Demókrati og var varaforsetaefni Kamölu Harris í forsetakosningunum á síðasta ári, harðlega fyrir að taka ekki nógu hart þegar í stað á öllum þessum fjársvikum.
Walz, sem hefur verið ríkisstjóri síðan 2019, segir að ríkið hafi upphaflega bakkað með rannsókn á áðurnefndum svikum úr mataraðstoðaráætluninni að beiðni alríkislögreglunnar, FBI. Á þeim tíma sem Covid-faraldurinn stóð sem hæst hafi skort alla eftirfylgni af hálfu alríkisins með því hvort fjármunir sem ætlaðir hefðu verið til að fjármagna hvers kyns velferðarþjónustu, vegna áhrifa faraldursins, hefði í raun og veru verið varið í slíkt.
Walz hefur hrundið af stað sérstakri áætlun til að auka eftirlit með fjársvikum í velferðarkerfinu og hann og embættismenn í ríkinu segja að framvegis verði fylgst betur með að fjármunir fari í raun og veru í velferðarþjónustu og að það verði ekki liðið að opinbert fé sé nýtt í sviksamlegum tilgangi.