
Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærunefnd útlendingamála hafi ekki farið að lögum við frávísun á kæru hælisleitanda frá Venesúela, sem er kona. Konunni hafði verið synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísað úr landi. Hún vildi nýta sér rétt sinn til að kæra þá niðurstöðu til kærunefndar útlendingamála. Talsmaður hennar sinnti hins vegar ekki beiðni hennar um að kæra og þegar kæran var loks lögð fram vísaði nefndin henni frá á grundvelli þess að hún væri of seint fram komin.
Konan sótti um alþjóðlega vernd hjá Útlendingastofnun í mars 2023 og var skipaður talsmaður í september 2023. Mætti talsmaðurinn með henni í viðtöl hjá Útlendingastofnun. Í apríl 2024 var umsókninni loks synjað. Konunni var brottvísað og veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið auk þess sem henni var ákvarðað endurkomubann sem þó skyldi falla niður yfirgæfi hún landið sjálfviljug innan frestsins. Þótti konan ekki hafa sýnt fram á að hún ætti hættu á að sæta illri meðferð eða ofsóknum í heimalandinu og ekki hafa sýnt fram á að hún hefði ríka þörf fyrir vernd.
Talsmaðurinn upplýsti konuna samdægurs um ákvörðun Útlendingastofnunar, með tölvupósti, og mælti með því að hún myndi kæra ákvörðunina og hún hefði 14 daga frest til þess. Konan svaraði um hæl að hún vildi kæra en þeim pósti svaraði talsmaðurinn ekki. Um þremur vikum síðar hringdi Útlendingastofnun í konuna og minnti á að hún hefði 15 daga frest til að yfirgefa landið sjáflviljug þar sem engin kæra hefði borist. Kom það konunni verulega á óvart.
Konan hafði í kjölfarið samband við samstarfsmann talsmannsins sem baðst á endanum afsökunar á að henni hefði ekki verið svarað en hennar póstur hefði verið skilinn þannig að í honum fælist ekki staðfesting á að hún vildi kæra synjun Útlendingastofnunar. Lagði konan þá sjálf fram kæru hjá kærunefnd útlendingamála og var skipaður nýr talsmaður.
Nýi talsmaðurinn vildi meina að þótt kærufrestur væri liðinn væru fyrir hendi veigamiklar ástæður, í samræmi við stjórnsýslulög, til að taka kæruna til meðferðar.
Í ágúst 2024 vísaði kærunefnd útlendingamála kærunni frá á grundvelli þess að hún hefði borist of seint og að konan og hennar talsmaður hefðu borið ábyrgð á því að leggja kæruna fram tímanlega. Ekki væru fyrir hendi ástæður til að taka hana til meðferðar.
Konan kvartaði í kjölfarið til umboðsmanns Alþingis.
Í svörum nefndarinnar til umboðsmanns kom meðal annars fram að nefndin hafi ekki lagt til grundvallar að mistök talsmanna við að skila inn kærum innan kærufresta leiddi til þess að kæra væri tekin til meðferðar. Það væri á ábyrgð bæði kærenda og talsmanna þeirra að fylgja málum eftir hjá stjórnvöldum og ljóst væri að konunni hefði verið kunnugt um niðurstöðu Útlendingastofnunar og talsmanni hennar einnig áður en kærufrestur var liðinn. Yrði konan því að bera hallann af því að misskilningur hennar og talsmannsins um vilja hennar til að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar hafi valdið því að kæra barst ekki innan lögmælts kærufrests.
Í áliti umboðsmanns er vitnað í úrskurð kærunefndar útlendingamála um kæru konunnar og að hann megi skilja sem svo að konan sjálf hafi haft sérstakt tilefni til að hafa samband við Útlendingastofnun með fyrirspurn um mál sitt. Umboðsmaður tekur hins vegar ekki undir það. Konunnni hafi verið skipaður talsmaður sem hefði haft það lögákveðna hlutverk að koma fram gagnvart Útlendingastofnun fyrir hennar hönd og hefði gert það á fyrri stigum málsins.
Umboðsmaður segir gögn málsins ekki benda til annars en að konan hafi viljað leggja fram kæru enda hefði hún sjálf gert það daginn eftir að starfsmaður Útlendingastofnunar hafði samband við hana símleiðis og upplýsti hana um að ákvörðunin um að synja henni um alþjóðlega vernd hefði ekki verið kærð. Umboðsmaður minnir á að umsækjendum um alþjóðlega vernd sé samkvæmt lögum tryggð sérstök aðstoð löglærðra talsmanna í því skyni að tryggja réttaröryggi þeirra og þar af leiðandi sé ekki hægt að ganga út frá því að umsækjendur beri í öllum tilvikum ábyrgð á mistökum slíkra talsmanna enda sé grundvöllurinn að réttarsambandi þeirra annar en til að mynda það samningssamband sem sé milli lögmanna og skjólstæðinga þeirra.
Þess vegna verði að gjalda varhug við því að láta þá bera hallann af mistökum talsmanna með þeim hætti sem kærunefnd útlendingamála hafi gert í þessu máli. Þar að auki telur umboðsmaður ekki ljóst hvort og þá hvaða ætlaða þátt konan hafi átt í þeim misskilningi sem kærunefndin leggi til grundvallar að hafi átt sér stað.
Þar af leiðandi hafi skort á að málefnaleg og forsvaranleg sjónarmið hafi búið að baki því að láta konuna bera hallann af mistökum talsmanns síns.
Umboðsmaður segir einnig að skort hafi á að kærunefnd útlendingamála hafi í úrskurði sínum í málinu lagt mat á, í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga, hvort taka ætti kæruna til meðferðar í ljósi atvika málsins.
Ljóst sé einnig að nefndin hafi ekki lagt mat á starfshætti talsmannsins og hvort þeir uppfylltu ákvæði stjórnsýslulaga um að veigamiklar ástæður þurfi að vera fyrir því að taka stjórnsýslukæru til meðferðar að loknum kærufresti. Í ljósi aðstæðna hafi nefndinni borið að gera það.
Nefndin hafi þar með ekki lagt heildstætt og fullnægjandi mat á hvort skilyrði væru fyrir hendi að taka kæruna til meðferðar.
Niðurstaða umboðsmanns Alþingis er því sú að úrskurður kærunefndar útlendingamála um kæru konunnar hafi ekki verið í samræmi við lög og beinir þeim tilmælum til nefndarinnar að taka málið fyrir að nýju, óski konan eftir því, og taki þá mið af áliti umboðsmanns.