

Guðjón Pétur Lýðsson, þjálfari karlaliðs Hauka, er ekki sáttur við fréttaflutning af því að félagið ætti sér þann draum að fá Sigurð Egil Lárusson til félagsins.
Í morgun birtist frétt á Fótbolta.net um að Haukar vildu Sigurð, sem rann út af samningi við Val í haust og hefur verið orðaður við nokkur lið. Var vitnað í hlaðvarpið Kjaftæðið, sem birtist á miðlinum.
„Ný lægð í leit að klikkum en fréttamennska er komin á mjög lágt plan , og nú féll síðasta vígið fótbolti.net sem er eini miðillinn sem hingað til hefur ekki birt bull fréttir nema í powerade slúðurdálk,“ skrifar Guðjón hins vegar á samfélagsmiðla.
„Á íslandi þarf að hringja eitt símtal til að fact tékka hluti , svara því hér með að Haukar eru mjög sáttir með hópinn og við erum alls ekki að eltast við Sigga Lár né aðra leikmenn þó ég sé mikill aðdáandi Sigga sem leikmanns enda einn besti leikmaður bestu deildarinnar.
Vonandi endar hann í einum af bestu klúbbum landsinns enda einn sá besti í sinni stöðu og hefur því miður verið illa nýttur síðustu ár. Með von um betri vinnubrögð.“
Samkvæmt heimildum 433.is bað Sigurður Guðjón um að mæta á eina æfingu með Haukum en aðeins til að halda sér í formi á meðan hann finnur sér nýtt lið. Þeir léku saman með Val á sínum tíma.